Innlent

179 Íslendingar eru í sólarlandaferð í Tyrklandi

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Manngerður teppaakur í Antalya.
Manngerður teppaakur í Antalya. Vísir/EPA
179 Íslendingar eru á vegum ferðaskrifstofunnar Nazar í strandbænum Antalya sem er við suðausturströnd Tyrklands. Bærinn er um 700 kílómetrum frá Istanbúl og tæpum 500 kílómetrum frá Ankara en átök brutust út þegar hluti tyrkneska hersins gerði tilraun til valdaráns í Tyrklandi í gærkvöldi í borgunum tveimur. Heildartala Íslendinga í Tyrklandi er ekki þekkt.

49 börn eru í ferðamannahópi Íslendinga í strandbænum. Þetta kemur fram á vef Túrista.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu í nótt var Íslendingum ráðlagt frá því að ferðast til Tyrklands.

„Utanríkisráðuneytið ræður öllum Íslendingum frá því að ferðast til Tyrklands nema af ítrustu nauðsyn. Íslendingar sem staddir eru í landinu eru beðnir um að halda sig innandyra, sýna varkárni og fylgjast með fregnum af ástandi mála. Borgaraþjónusta ráðuneytisins fylgist grannt með og mun senda út frekari upplýsingar þegar ástand mála skýrist frekar,“ sagði í tilkynningunni.

Hópurinn er væntanlegur hingað til lands á miðvikudaginn næstkomandi en það seldist upp í ferðina. Ferðin er sú síðasta hjá Nazar til Tyrklands þar sem erfiðlega gekk að selja í ferðirnar hér á landi. Kemal Yamanlar, framkvæmdastjóri Nazar, segir Íslendinga ekki virka órólega vegna atburða næturinnar. Hann er staddur í Tyrklandi og ræddi við Túrista í dag. 

Flug í Tyrklandi liggur niðri en vonir standa til þess að flugsamgöngur komist í lag sem fyrst. Flugfélagið British Airwaves hefur aflýst öllum áætluðum flugferðum sínum til Tyrklands eftir að ferðamenn voru hvattir til þess að halda sig innandyra. Nazar hafa einnig ákveðið að gefa farþegum kost á að afbóka sig hafi þeir keypt sér ferð til Tyrklands en ferðaskrifstofan selur ferðir til Tyrklands á öllum Norðurlöndunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×