Lífið

Axarkast og stauraklifur í Heiðmörk

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Gústaf Jarl Viðarsson skógarvörður í Heiðmörk lofar góðri skemmtun í dag en Skógarleikarnir 2016 hefjast klukkan 14.
Gústaf Jarl Viðarsson skógarvörður í Heiðmörk lofar góðri skemmtun í dag en Skógarleikarnir 2016 hefjast klukkan 14. Mynd/Eyþór
Skógarleikarnir 2016 fara fram í Heiðmörk í dag. Þetta er annað árið í röð sem Skógræktarfélag Reykjavíkur efnir til leikanna. Nokkrir af færustu skógarhöggsmönnum landsins munu leiða saman hesta sína og verður gestum boðið í grillveislu.



„Okkur hafði langað til að halda skógarhátíð um nokkurn tíma þegar við létum loks verða af því á síðasta ári. Leikarnir í fyrra heppnuðust mjög vel og voru bæði fjölmennir og skemmtilegir. Ætlunin er að Skógarleikarnir verði árlegur viðburður hér í Heiðmörk,“ segir Gústaf Jarl Viðarsson, skógarvörður og stjórnandi Skógarleikanna 2016, en Skógræktarfélag Reykjavíkur blæs til leikanna í dag í Heiðmörk, milli klukkan 14 og 17.

Grill og ketilkaffi

Gústaf lofar gestum góðri skemmtun í Furulundi. Gestir geti fengið sýnikennslu í tálgun og þá verður eldsmiður að störfum í skóginum og sýnir gamalgróin handtök. Borðtennisborð og ýmis skógarleiktæki verða einnig í lundinum og þá verður öllum boðið í grillveislu. Skógarbrauð verður grillað yfir varðeldi og boðið upp á rjúkandi ketilkaffi. Gústaf segir leikana haldna að baltneskri og bandarískri fyrirmynd og munu skógarhöggsmenn af Suður- og Vesturlandi keppa sín á milli í skógarhöggsgreinum.

Axarkast og stauraklifur

„Það hafa átta skógarhöggsmenn skráð sig til leiks. Þeir keppa í nokkrum greinum svo sem að höggva boli í stundur með öxi og í að afkvista boli. Keppt verður í axarkasti og einnig í stauraklifri og að rúlla bolum með prikum. Það er misjafnt milli greina hversu margir keppa, menn hafa sínar sérgreinar. Í flestum þeirra snýst þetta um að vera sem fljótastur,“ útskýrir Gústaf.

Dómari fylgist með keppendum og dæmir eftir hraða en einnig vinnubrögðum. „Það má ekki skilja eftir stubba í kvistunum,“ segir Gústaf og ítrekar: „Það þarf að kunna dálítið fyrir sér í axarbeitingu svo engin hætta sé á ferðum.

Það mega aðeins skógarhöggsmenn keppa í þessum greinum en gestir fá svo að spreyta sig í axarkastinu. Það er ekkert hættulegt en í það eru notaðar sérstakar kastaxir.“

Köflótt stemming

Gústaf segir skógarhögg á Íslandi enn sem komið er hálfgert karlasport og að einungis karlar séu skráðir til leiks á Skógarleikunum í ár. „Þetta eru allt karlar sem keppa í ár, því miður. Það hafa komið kvenkynsskógarhöggsmenn til okkar frá Danmörku en þær komast ekki í ár,“ segir Gústaf. Hann reiknar með að draga fram einkennisbúning skógarhöggsmannsins í tilefni dagsins, köflótta skyrtu, en vill þó ekki eigna íslenskum skógarhöggsmönnum hið vinsæla tískutrend, „lumberjack“ þó að það hafi ekki farið fram hjá þeim.

„Jú, maður hefur tekið eftir þessari tísku, hippsterar og forritarar sem vilja líta út eins og skógarhöggsmenn,“ segir hann hlæjandi. „Það er bara skemmtilegt ef fólk horfir til náttúrunnar varðandi tísku og finnst skógarmenningin flott,“ bætir hann við og kannast einnig við vinsældir raunveruleikaþátta á sjónvarpsstöðvunum Discovery og History channel, þar sem skógarhöggsmenn eru í aðalhlutverki.

„Okkur finnst nú ekki leiðinlegt að horfa þessa þætti og bröllum meira að segja ýmislegt sjálfir. Það stendur jafnvel til að byggja bjálkakofa frá grunni hér í Heiðmörk einhvern daginn en það er vel hægt að byggja bjálkakofa úr íslenskum trjám.“

Skógarleikarnir hefjast í Furulundi í Heiðmörk í dag klukkan 14.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×