Íslenski boltinn

Jeppe á leið í Vesturbæinn?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Danski framherjinn Jeppe Hansen er á förum til KR samkvæmt heimildum Fótbolta.net.

Eins og fram kom á Vísi í gær hefur Jeppe fengið leyfi til að yfirgefa Stjörnuna sem hann hefur leikið að mestu með frá 2014.

Jeppe er ósáttur við lítinn spiltíma í Garðabænum en hann hefur aðeins tvisvar sinnum verið í byrjunarliði Stjörnunnar í Pepsi-deildinni í sumar.

Í frétt Fótbolta.net kemur fram að Stjarnan hafi samþykkt tilboð KR í hinn 27 ára gamla Jeppe sem hefur skorað 16 mörk í 37 deildarleikjum fyrir Stjörnuna.

KR-ingum hefur gengið skelfilega upp við mark andstæðinganna í sumar og aðeins skorað átta mörk í deildinni, fæst allra liða. Framherjar liðsins, þeir Hólmbert Aron Friðjónsson og Morten Beck Andersen, eiga enn eftir að skora deildarmark á tímabilinu.

KR er í 10. sæti Pepsi-deildarinnar með 10 stig eftir 10 umferðir. Vesturbæjarliðið mætir Grasshoppers frá Sviss á Alvogen-vellinum í fyrri leik liðanna í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×