Viðskipti innlent

Bónusar tengdir við kynjajafnrétti í bönkum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Stærstu bresku bankarnir og tryggingafyrirtæki, auk nokkurra bandarískra banka og fjárfestingarfyrirtækja, hafa skrifað undir áskorun breskra stjórnvalda um að fjölga konum í stjórnendastöðum.

Stjórnendur fjármálafyrirtækjanna hafa meðal annars samþykkt að tengja bónusgreiðslur framkvæmdastjórnar við það að ráða konur í stjórnendastöður. Fjölgi konum ekki í stjórnendastöðum gætu laun hæstráðenda lækkað.

Meðal fyrirtækja sem hafa skrifað undir áskorunina eru bresku bankarnir Barclays og HSBC, auk Deutsche Bank, Morgan Stanley og BlackRock. Samtals starfa 500 þúsund manns fyrir þessi fyrirtæki innan Bretlands.

Fyrirtækin munu setja sér markmið varðandi fjölbreytni í kynjasamsetningu hæstráðandi stjórnenda, gefa út framvinduskýrslur árlega og skipa framkvæmdastjóra sem er ábyrgur fyrir kynjajafnrétti.

Mikill kynjahalli er í breska fjármálageiranum. Samkvæmt skýrslu sem Jayne-Anne Gadhia, framkvæmdastjóri Virgin Money, stóð fyrir er fjórðungur stjórnarmanna breskra fyrirtækja konur, en þær nema einungis fjórtán prósentum í framkvæmdastjórnum fyrirtækja. Innan fjármálageirans eru konur líklegastar til að vera í stjórnunarstöðum innan banka, en ólíklegastar meðal vogunarsjóða og einkahlutabréfasjóða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×