Viðskipti innlent

Biðst velvirðingar á klaufalegu orðalagi: Segir að neytendur muni ekki bera mögulega sektargreiðslu MS

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ari Edwald forstjóri MS.
Ari Edwald forstjóri MS. vísir
Ari Edwald forstjóri MS biðst velvirðingar á klaufalegu orðalagi þegar hann gaf í skyn að neytendur myndu borga sektargreiðslu sem Samkeppniseftirlitið lagði á fyrirtækið fyrir helgi. Í tilkynningu frá Ara segir hann að neytendur muni ekki bera mögulega sektargreiðslu MS:

„Umræða um sekt er heldur ekki tímabær þar sem málinu er ekki lokið og fer nú til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. MS gerir sér sterkar vonir um að endanleg niðurstaða í þessu máli muni ekki fela í sér viðurlög fyrir MS. Stjórnendur MS hafa alltaf lagt ríka áherslu á að starfa í samræmi við lög og reglur. MS hefur enda aldrei sætt niðurstöðu um að hafa brotið samkeppnisreglur, hvorki af hálfu stjórnvalda né dómstóla,“ segir Ari í tilkynningunni.

Mikil umræða hefur skapast um stöðu MS á markaði í kjölfar sektar Samkeppniseftirlitsins en í úrskurði þess segir að fyrirtækið hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína með alvarlegum hætti. Hafa fjölmargir neytendur í kjölfarið gripið til þess ráðs að sniðganga vörur MS og versla frekar vörur frá til dæmis Örnu og KÚ.

Í tilkynningunni rekur Ari hvernig ákvarðanir um verð á helstu mjólkurvörum í heildsölu og lágmarksverð til bænda eru teknar af opinberri verðlagsnefnd.

„Þar á meðal eru verðákvarðanir á öllum hráefnum sem seld eru samkeppnisaðilum MS og öðrum matvælaframleiðendum. Við ákvarðanatöku styðst verðlagsnefnd meðal annars við kostnaðarþróun í rekstri kúabúa og afurðastöðva. MS hefur því ekki nokkra hagsmuni eða getu til að misnota þá stöðu sem félagið er í. Þvert á móti eru það hagsmunir MS og bænda að sem mest magn af mjólk sé unnið og selt á markaði og að vöruþróun fleiri fyrirtækja skili árangri.

Skýrsla Hagfræðistofnunar frá síðasta ári og fleiri rannsóknir staðfesta, að sú umgjörð sem mjólkurframleiðsla hefur búið við á undanförnum árum hefur leitt til mikillar hagræðingar í greininni. Sú hagræðing hefur síðan skilað sér til neytenda í lækkuðu vöruverði, sem nemur milljörðum króna árlega,“ segir í tilkynningu forstjóra MS.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×