Innlent

Búvörusamningarnir í uppnámi: Framsóknarmenn neita að tjá sig

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Frá undirritun búvörusamninga.
Frá undirritun búvörusamninga. Mynd/Atvinnuvegaráðuneytið
Forsvarsmenn Framsóknarflokks hafa ekki viljað tjá sig um fyrirhugaðar breytingar á búvörusamningunum, sem undirritaðir voru í febrúar. Samningarnir eru komnir í uppnám nú eftir að ljóst er að þingið mun ekki samþykkja þá óbreytta.

Búvörusamningarnir eru eitt þeirra stóru mála sem þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt áherslu á að klára áður en gengið verður til kosninga í haust. Í ljósi þess hefur fréttastofa reynt að ná tali af Framsóknarmönnum, en án árangurs.

Gunnar Bragi Sveinsson landbúnaðarráðherra hefur neitað að tjá sig, og sömuleiðis Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks og fyrrverandi forsætisráðherra. Aðstoðarmaður Sigmundar sagði í samtali við fréttastofu að Sigmundur muni „ekki tjá sig að svo stöddu“, hann þurfi fyrst að vinna í málunum. Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og fyrrverandi landbúnaðarráðherra, sem undirritaði samninginn í febrúar, hefur ekki svarað símtölum fréttastofu.

Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að unnið væri að breytingum sem lagðar verði til áður en frumvarpið fer fyrir þingið, í von um að sátt náist. Nefndin vill meðal annars að ákvæði um endurskoðun samninganna árið 2019 verði rýmra en lagt var upp með.

Bændur segjast hins vegar ekki ætla að sætta sig við breytingar á samningunum. Orðalagsbreytingar verði væntanlega samþykktar, en engar grundvallarbreytingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×