Innlent

Íbúar í Mývatnssveit vilja ekki sjá stærra hótel á bakka vatnsins

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Íbúar í Reykjahlíð eru margir mjög ósáttir við að tapa útsýni yfir Mývatn.
Íbúar í Reykjahlíð eru margir mjög ósáttir við að tapa útsýni yfir Mývatn. Fréttablaðið/Vilhelm
Liðlega tvö hundruð íbúar í Mývatnssveit skrifuðu undir undirskriftalista til lýsa andstöðu sinni við að byggt verði stórt hótel á bakka Mývatns við Hótel Reykjahlíð.

Alls skrifuðu 202 íbúar undir listann sem er 66 prósent íbúa á svæðinu en 58, eða 19 prósent, vildu ekki taka þátt. Söfnunin hófst þann 25. júní og lauk í dag þegar Yngvi Ragnar Kristjánsson, oddviti hreppsnefndar tók við undirskriftalistunum úr hendi Ásdísar Illugadóttur.

Fréttablaðið greindi frá því í júní að engin sátt ríkti innan Skútustaðahrepps um stækkun Hótels Reykjahlíðar. Þá kom fram að sveitarstjórnin væri klofin í málinu og íbúar lýstu furðu sinni á því að svo virðist sem ákveðið hafi verið að ganga gegn yfirlýstri stefnu sveitarfélagsins um uppbyggingu í Reykjahlíð.

Áformaðar nýbyggingar við Hótel Reykjahlíð á vegum Icelandair Hotels eiga að rísa langt innan þess 200 metra verndarsvæðis sem er markað hringinn í kringum vatnið og Laxá allt til ósa Skjálfandafljóts, samkvæmt sérlögum um vernd Mývatns og Laxár.

Í tilkynningu frá íbúum vegna undirskriftasöfnunarinn segir að „framkvæmdin gangi gegn anda laga um verndun Mývatns og Laxár. Íbúarnir telja að hún muni spilla útsýni til vatnsins og ímynd sveitarinnar. Samþykkt áformanna skapi hættulegt fordæmi varðandi framkvæmdir á verndarsvæðinu.“

Yngvi Ragnar þakkaði þeim sem stóðu að undirskriftasöfnuninni fyrir að sýna málefnum sveitarfélagsins áhuga og sagði að auðvitað yrði hlustað á það sem verulegur meirihluta íbúanna segði.

 Textinn sem fólk undirritaði er eftirfarandi:

„Við undirrituð, íbúar í Skútustaðahreppi, leggjumst gegn áformaðri byggingu við Hótel Reykjahlíð. Byggingin gengur gegn anda laga um verndun Mývatns og Laxár þar sem 200 metra bakki er friðaður. Hún spillir útsýni til vatnsins og er brot á þeirri reglu að hefja atvinnurekstur ekki vatnsmegin vegar.  Þótt talað sé um viðbyggingu er öllum ljóst að hér er annað og meira á ferðinni.  Samþykki fyrirliggjandi deiluskipulagstillögu myndi setja hættulegt fordæmi. Við skorum því á sveitarstjórn og skipulagsnefnd að stöðva þegar í stað umfjöllun um hana.“


Tengdar fréttir

Ósáttir við stækkun hótels

Áform Icelandair Hotels um að stækka Hótel Reykjahlíð margfalt mæta mikilli óánægju á meðal íbúa. Sveitarstjórnin er klofin í málinu.

Hótel langt innan verndarlínu

Margföldun á stærð Hótels Reykjahlíðar, sem Icelandair Hotels áformar, er langt innan verndarlínu sérlaga um vernd Mývatns og Laxár. Umhverfisstofnun setur stranga fyrirvara. Sveitarstjóri segir ekkert hafa verið ákveðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×