Erlent

Ítalskir foreldrar sviptir forsjá vegna vegan mataræðis

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Starfsfólk spítala í Mílanó lét barnaverndaryfirvöld vita af málinu.
Starfsfólk spítala í Mílanó lét barnaverndaryfirvöld vita af málinu. vísir/epa
Fjórtán mánaða ítalskt barn hefur verið tekið úr forsjá foreldra sinna sökum vanrækslu. Drengurinn hafði verið á vegan matarræði hjá foreldrunum. Sagt er frá málinu á Washington Post.

Að vera vegan þýðir að þú borðar engar dýraafurðir. Foreldrar barnsins voru vegan og létu barnið gera slíkt hið sama. Hins vegar láðist þeim að gefa því nauðsynleg vítamín og bætiefni. Drengurinn var vannærður og vó jafn mikið og þriggja mánaða barn. Barnið þjáðist að auki vegna kalsíumskorts.

Starfsfólk sjúkrahússins lét barnaverndaryfirvöld vita og hefur barnið nú verið tekið úr forsjá foreldra sinna. „Það er í lagi að prófa óvenjulegar leiðir til næringar og við munum ekki taka afstöðu í því máli. Hins vegar hefði barnið þurft að fá járn og kalsíum,“ sagði yfirmaður barnalæknina á spítalanum í Mílan.

Þetta er ekki fyrsta tilvikið í ár á Ítalíu þar sem barn er vannært vegna vegan matarræðis. Snemma í síðasta mánuði voru tvö börn, annað ellefu mánaða og hitt tveggja ára, lögð inn á spítala í Genoa og Flórens sökum vannærslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×