Skoðun

Skerðing lífeyris eins og eignaupptaka!

Björgvin Guðmundsson skrifar
Þegar stjórn Alþýðuflokks, Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks kom almannatryggingunum á fót 1946 fór það ekki á milli mála fyrir hverja almannatryggingarnar áttu að vera. Tekið var skýrt fram, að almannatryggingarnar ættu að vera fyrir alla án tillits til efnahags og stéttar. Þær áttu ekki að vera fátækraframfærsla. Þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir kom það skýrt fram, að þeir áttu að vera viðbót við lífeyri almannatrygginga en ekki skerða almannatryggingar eins og gerist í dag. Ef það hefði legið fyrir, þá hefðu launamenn á Íslandi ekki greitt i lífeyrissjóðina.

Ég hef sagt það áður, að skerðing lífeyris vegna greiðslna úr lífeyrissjóði er eins og eignaupptaka. Áhrifin af þessari gífurlegu skerðingu ríkisins á lífeyri almannatrygginga eru nákvæmlega eins og ríkið væri að gera upptækan hluta lífeyris eldri borgara í lífeyrissjóðum. Það er líkast því sem ríkið sé að taka hluta lífeyrisins ófrjálsri hendi.

En þegar ríkið er búið að leika þann leik árum saman að taka hluta lífeyris eldri borgara reglulega traustataki, kemur ríkisstjórnin fram nú og segist ætla að skila hluta af þessu til baka, ætla að hætta að taka svona mikið af okkur „ófrjálsri hendi“. Og þá eigum við eldri borgarar að falla fram og þakka fyrir, að við fáum að halda örlitlu meira af þvi, sem við eigum. Þakka skyldi þeim.

Verkefni ríkisstjórnarinnar númer eitt er að hafa lífeyri aldraðra það háan, að hann dugi til framfærslu. Ríkisstjórnin svíkst um það. Hún hækkar ekki lífeyrinn um eina krónu. Hún leggur fram tillögur um óbreyttan lífeyri. Þó er ekki unnt að lifa af honum. Lífeyrir einhleypra eldri borgara er 207 þúsund krónur á mánuði en í hjónabandi er lífeyrir 185 þúsund krónur, eftir skatt. Geta einhverjir aðrir lifað af þessari hungurlús? Ég held ekki.

En verkefni ríkisstjórnarinnar númer tvö er að afnema tekjutengingarnar, afnema skerðingar með öllu. Það á ekki að draga úr þeim; það á að afnema þær. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lofaði eldri borgurum því fyrir síðustu kosningar, að svo yrði gert. Við það á að standa. Stjórnmálamenn geta ekki gefið stór kosningaloforð án þess að standa við þau. Sá tími á að vera liðinn á Íslandi.

Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×