Erlent

Þrír írskir bankamenn dæmdir til fangelsisvistar

Atli Ísleifsson skrifar
Willie McAteer fékk þyngsta dóminn, þrjú og hálft ár.
Willie McAteer fékk þyngsta dóminn, þrjú og hálft ár. Vísir/AFP
Þrír háttsettir bankamenn, sem áður störfuðu hjá Anglo Irish Bank, hafa verið dæmdir í tveggja til þriggja og hálfs árs fangelsi vegna brota sem framin voru í fjármálakrísunni árið 2008.

Mennirnir eru dæmdir fyrir að hafa afvegaleitt fjárfesta, fjármagnseigendur og lánveitendur með því að hafa skráð röð gríðarhárra og innistæðulausra millifærslna til að láta sjóði bankans líta digrari út en þeir voru í raun.

Fjármálakreppan 2008 neyddi írska ríkið til að sækja um há neyðarlán til ESB, hærri en nokkurt annað land á evrusvæðinu.

Fjármálakreppan hefur kostað írska skattgreiðendur alls 64 milljarða evra, eða um 8.500 milljarða króna. Írska ríkið eignaðist meirihluta í Anglo Irish Bank árið 2009.

Framkvæmdastjórinn Willie McAteer var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi en starfsbróðir hans John Bowe tveggja ára dóm. Þá var Denis Casey, yfirmaður hjá Irish Life and Permanent, dæmdur í tveggja ára og níu mánaða fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×