Viðskipti innlent

Tæpur helmingur Íslendinga segjast ætla til útlanda í sumarfríinu

Atli Ísleifsson skrifar
Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Vísir/Valli
Íslendingar ætla í auknum mæli að ferðast til útlanda í sumarfríinu á kostnað ferðalaga innanlands. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR en ekki hafa fleiri sagst ætla að ferðast utanlands í sumarfríinu frá því að mælingar hófust í júní 2011.

Af þeim sem afstöðu tóku sögðust 49,6 prósent ætla að ferðast utanlands í sumarfríinu og þar af sögðust 14,4 prósent eingöngu ætla að ferðast utanlands.

„Til samanburðar sögðust 35,2% ætla að ferðast utanlands árið 2013 og þar af sögðust 7,1% eingöngu ætla að ferðast utanlands sama ár. 

Þeim sem sögðust ætla að ferðast innanlands í sumarfríinu hefur fækkað frá því 2013 þegar 82,8% sögðust ætla að ferðast innanlands í sumarfríinu, borið saman við 70,9% nú. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 14,7% ekki ætla að ferðast neitt í sumarfríinu, borið saman við 16,0% í fyrra,“ segir í frétt MMR.

Samkvæmt könnuninni voru íbúar höfuðborgarsvæðisins líklegri til að ferðast innanlands en íbúar landsbyggðarinnar.

Munur eftir stjórnmálaskoðunum

Könnunin leiddi einnig í ljós nokkurn mun á ferðahögum eftir stjórnmálaskoðunum.

„Þeir sem að sögðust styðja Framsóknarflokkinn voru líklegastir til að ferðast í sumarfríinu á meðan þeir sem sögðust styðja Samfylkinguna voru ólíklegust til að ferðast í sumarfríinu. Af þeim sem studdu Framsóknarflokkinn voru aðeins 4,8% sem sögðust ekki ætla að ferðast neitt í sumarfríinu, borið saman við 23,1% þeirra sem studdu Samfylkinguna.

Þeir sem að studdu Bjarta framtíð voru líklegastir til að segjast ætla að ferðast innanlands í sumar en þeir sem studdu Sjálfstæðisflokkinn voru ólíklegastir. Af þeim sem tóku afstöðu og studdu Bjarta framtíð sögðust 81,1% ætla að ferðast innanlands í sumarfríinu, borið saman við 69,5% þeirra sem studdu Sjálfstæðisflokkinn,“ segir í fréttinni.

Nánar er fjallað um könnunina hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×