Erlent

Ummæli slitin úr samhengi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands. Nordicphotos/AFP
Boris Johnson, nýr utanríkisráðherra Bretlands sagði í gær mörg umdeildra ummæla sinna hafa verið slitin úr samhengi. Þetta fullyrti Johnson á sameiginlegum blaðamannafundi hans og Johns Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Vísaði Johnson þar meðal annars til ummæla árið 2007 um Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda demókrata, þar sem hann líkti henni við hjúkrunarfræðing á geðdeild sem haldinn væri kvalalosta. Johnson velti einnig upp þeirri spurningu fyrr á þessu ári hvort Barack Obama Bandaríkjaforseta væri illa við Bretland því hann væri af kenískum ættum. Johnson sagði óþarft að eyða tíma í að ræða allt það sem hann hefði sagt undanfarin þrjátíu ár.

Ráðherrarnir ræða í dag um stríðið í Sýrlandi en í gær var rætt um mögulegan fríverslunarsamning á milli Bandaríkjanna og Bretlands.

Fréttin birtist fyrst í Fréttblaðinu 20. júlí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×