Erlent

Gríðarleg sprenging í höfuðborg Afganistan

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Aðeins er rétt rúm vika síðan sjálfsmorðssprengjuárás var gerð í borginni. Myndin sýnir verksummerki eftir þau hryðjuverk.
Aðeins er rétt rúm vika síðan sjálfsmorðssprengjuárás var gerð í borginni. Myndin sýnir verksummerki eftir þau hryðjuverk. Vísir/AFP
Uppfært 1. ágúst 13.30 Einn lögreglumaður féll í árás tveggja manna á hótel í Kabúl, höfuðborg Afganistan, í nótt. Báðir árásarmennirnir féllu. Þetta kemur fram á vef BBC.

Mennirnir sprengdu bílasprengju skammt frá hóteli þar sem fjöldi diplómata dvelur. Enginn á hótelinu særðist. Sömu sögu er að segja af öðrum almennum borgurum. 

Til skotbardaga kom milli lögreglu og árásarmannanna sem varði í nokkrar klukkustundir. Þrír lögreglumenn særðust. 

Gífurleg sprenging vakti íbúa Kabúl, höfuðborgar Afganistan, af svefni nú fyrir stundu. Klukkan þar í landi er 01.30. Sagt er frá á vef BBC.

Fyrstu heimildir herma að sprengingin hafi átt sér stað skammt frá Hamid Karzai flugvellinum. Rafmagnslaust er í borginni sem stendur.

Ekki er vitað hvort sprengingin var afleiðing slyss eða hvort um árás var að ræða. Aðeins er rétt rúm vika síðan áttatíu manns fórust í sjálsmorðssprengjuárás í borginni. Á þriðja hundrað særðist í þeirri árás.

Fréttin verður uppfærð eftir því sem frekari upplýsingar berast.

22.50 Talíbanar hafa lýst því yfir að þeir beri ábyrgð á árásinni. Engar tölur um mannfall hafa borist.



22.25 Útlit er fyrir að um árás hafi verið að ræða. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem árás er gerð á umrætt hótel. Það gerðist einnig fyrir rúmum þremur árum en þá voru Talíbanar að verki. Fimm árásarmenn féllu auk fjögurra öryggisvarða féllu þá.

22.10 Samkvæmt heimildum TOLOnews átti sprengingin sér stað skammt frá hóteli sem heitir Northgate. Hótelið er skammt frá sendiráðum erlendra ríkja.

21.53 Afgönsku fjölmiðlarnir TOLOnews og Hasht e subh Daily segja að um bílasprengju hafi verið að ræða. Þá herma heimildir TOLOnews að fleiri smærri sprengingar hafi átt sér stað í kjölfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×