Erlent

Segir það tímaspursmál hvenær Bretland verði næst fyrir hryðjuverkaárás

Atli Ísleifsson skrifar
Æðsti yfirmaður lögreglunnar í London, Sir Bernard Hogan-Howe.
Æðsti yfirmaður lögreglunnar í London, Sir Bernard Hogan-Howe. Vísir/AFP
Æðsti yfirmaður lögreglunnar í London, Sir Bernard Hogan-Howe, segir það einungis vera tímaspursmál hvenær Bretland verði næst skotmark hryðjuverkamanna.

Hogan-Howe skrifar grein í Mail on Sunday í tilefni af nýlegum hryðjuverkaárásum í Evrópu og segir Breta standa frammi fyrir „mjög raunverulegri ógn“.

„Ég finn fyrir og skil þann ótta, og sem lögreglustjórinn sem ber ábyrgð á að koma í veg fyrir slíkar árásir þá veit ég að þið viljið að ég rói ykkur. Ég get ekki fullkomlega gert það. Viðbúnaðarstig okkar [...] þýðir að árás er talin mjög líkleg – og hægt er að segja að spurningin sé hvænær, ekki hvort.“

Viðbúnaðarstig vegna mögulegrar hryðjuverkaárásar hefur verið hátt í Bretlandi allt frá ágúst 2014 og segir lögreglustjórinn að lögreglu hafi tekist að koma í veg fyrir fjölda árása.

Hann hrósaði jafnframt breskum almenningi fyrir „umburðarlyndi og viðurkenningu“ og sagði að „sameiginleg gildi“ ólíkra hópa, sem og breskir lifnaðarhættir og menning, geri Bretland næmari fyrir hryðjuverkaárásum.

Í frétt Sky News um málið er einnig haft eftir Hogan-Howe að leiðin til að sigra hryðjuverkamennina felist ekki síður í að neita því að gefa sig hræðslunni á vald. Þá sagði hann breskan almenning eiga í betri samskiptum við lögreglumenn en þekkist víða annars staðar þar sem þeir væru óvopnaðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×