Erlent

Fundinn sekur um nauðgun á sænskri konu í London árið 1984

Atli Ísleifsson skrifar
Tilkynnt verður um ákvörðun refsingar þann 2. september næstkomandi.
Tilkynnt verður um ákvörðun refsingar þann 2. september næstkomandi. Vísir/Getty
Dómstóll í Bretlandi hefur fundið fimmtugan karlmann sekan af ákæru um nauðgun á sænskri konu sem hann framdi í almenningsgarði í London árið 1984, eða fyrir tæpum 32 árum síðan.

SVT greinir frá því að konan, sem þá var nítján ára gömul, hafi starfað sem au pair í bresku höfuðborginni í sex vikur þegar ráðist var á hana í desember 1984 og henni nauðgað í Hendon Park í norðvesturhluta London.

Enginn var handtekinn vegna málsins og sneri konan aftur til Svíþjóðar eftir atvikið. „Svo kann að virðast að þetta hafi gerst fyrir löngu síðan, en konunni finnst líkt og þetta hafa gerst í gær. Hún hefur lengi beðið eftir réttlæti,“ sagði saksóknarinn Samantha Cohen á meðan á réttarhöldunum stóð.

Árið 1998 voru sýni úr sæði árásarmannsins rannsökuð á ný en engin samsvörun fannst í gagnabanka lögreglu. Það gerðist hins vegar fyrir þremur árum þegar lífsýni mannsins, sem hafði áður verið sakfelldur fyrir manndráp, voru skráð í gagnabankann.

„Líkurnar á að sæðið komi úr öðrum en árásarmanninum eru einn á móti milljarði,“ sagði Cohen. Þessu til viðbótar er vitað að maðurinn bjó á þessum tíma í grennd við Hendon Park og passaði við lýsingar fórnarlambsins.

Tilkynnt verður um ákvörðun refsingar þann 2. september næstkomandi.

Eftir að rannsókn á málinu hófst á ný tókst lögreglu í Bretlandi að hafa uppi á konunni og hefur haldið henni upplýstri um framgang málsins.

„Það var mjög gefandi að geta hitt fórnarlambið og greint henni frá því, eftir öll þessi ár, að árásarmaðurinn sem réðst með svo grimmilegum hætti á hana, hafi verið fundinn og hann handtekinn,“ segir lögreglustjórinn Gary Farrelly í yfirlýsingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×