Viðskipti innlent

Frumkvöðlar fengu 35 milljónir í fjármögnun en sögðu nei takk

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frumkvöðlarnir sem standa að Study Cake stefna á nám frekar en útrás.
Frumkvöðlarnir sem standa að Study Cake stefna á nám frekar en útrás. Mynd/Vísir
Framleiðendur og forsprakkar íslenska sprotafyrirtækisins Study Cake sem gefur út samnefnt smáforrit afþökkuðu nýlega 35 milljón króna fjármögnun sem ætluð var til þess að koma vörunni á markað í Bretlandi.

Í bréfi sem stofnendur þrír, Kjartan Þórisson, Hörður Guðmundsson og Kristján Ingi Geirsson, birta á vefsíðu Study Cake þar sem farið er yfir ákvörðun þeirra segja þeir að uppgangur Study Cake hafi verið hraður.

„Í júní 2015, rétt eftir ævintýralega útskriftarferð á Tyrklandi, fengum við símtal frá fulltrúum Startup Reykjavík. Þetta símtal markaði á sínum tíma ákveðin kaflaskil í lífi okkar stofnendanna. Við fengum inngöngu í frábæran viðskiptahraðal og tvær milljónir íslenskra króna til þess að setja á fót fyrirtæki,“ segir í bréfinu.

Sjá einnig: Ráðast gegn ólæsi með nýju appi

Markmið þeirra var að gera heimavinnu skólabarna skemmtilegri en en fljótlega rákust þeir á vandamálið sem felst í minnkandi læsi barna og ungling. Því hafi kviknað hugmynd um að þróa smáforrit sem ætlað var að auka læsi barna og unglinga.

„Varan, sem fékk nafnið Study Cake, var kynnt í höfuðstöðvum Arion Banka í ágúst 2015, en síðan settumst við að í Nýsköpunarmiðstöð Íslands til þess að undirbúa okkur fyrir janúarútgáfu appsins og mögulega fjármögnun,“ segir í bréfinu.

Á innan við mánuði frá því að smáforritið var gefið út höfðu fimm þúsund manns sótt forritið og var m.a. fjallað um það á Alþingi. Þegar 7.500 notendur voru komnir í smáforritið fóru fjárfestar að sýna fyrirtækinu áhuga.

Sjá einnig: Heimanámið ætti að verða leikur einn

„Um þetta leyti hófust langar samningaviðræður, sem enduðu með samkomulagi: hópur fjárfesta myndi setja 35 milljónir króna inn í félagið yfir 18 mánaða tímabil. Þessi fjárfesting átti að ýta undir vöxt fyrirtækisins og var markmiðið sett á að gefa út vöru í Bretlandi,“ segir í bréfinu.

„Það fylgir því hins vegar mikil ábyrgð að taka við fjármunum annara. Áður en tekið er við miklum fjármunum sem á að eyða í framleiðslu og kynningu verða frumkvöðlar að spyrja sig mikilvægra spurninga,“ segir í bréfinu. „Er hægt að tekjuvæða lausnina? Er varan vítamín eða meðal? Eru stofnendur tilbúnir til þess að vinna í þessu næstu 5 til 10 árin, og þar af leiðandi — í okkar tilfelli — er lokamarkmiðið þess virði að fresta háskólanámi um ókomna tíð?“

Komust þeir að þeirri niðurstöðu eftir mikla íhugun að setjast frekar á skólabekk í stað þess „að fórna næstu 10 árum í vinnu við framleiðsluna.“ Fjárfestarnir voru því boðaðir á fund og fjármögnunin afþökkuð.

Leita þeir félagar nú að mögulegum arftökum til þess að taka við Study Cake hér á landi til þess að smáforritið geti nýst í íslenskum skólum og heimilum en nú hafa rúmlega níu þúsund manns sótt smáforritið.

Lesa má bréfið í heild sinni hér.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×