Viðskipti innlent

Tjáir sig ekki um launahækkanir þingmanna

Ingvar Haraldsson skrifar
Jónas Þór Guðmundsson.
Jónas Þór Guðmundsson.
Jónas Þór Guðmundsson, formaður kjararáðs, vill ekki tjá sig um hvort kjararáð sé með til skoðunar að gera breytingar á launum þingmanna og ráðherra.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði um miðjan júlí að það stæðist vart til lengdar að ráðuneytisstjórar væru á hærri launum en ráðherrar. Ummælin komu í kjölfar úrskurða kjararáðs um launahækkanir ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra ráðuneyta og fleiri embættismanna fyrr í sumar.

Jónas vill heldur ekki tjá sig um gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar um að úrskurðir kjararáðs um hækkanir setji SALEK-samkomulagið í uppnám og kalli á aðgerðir af hálfu Alþingis.

Kjararáð úrskurðaði síðast sérstaklega um laun þingmanna og ráðherra í árslok 2008 þar sem þingfararkaup var lækkað um 7,5 prósent og ráðherralaun um 14-15 prósent eftir lagabreytingu sem kvað á um lækkanir á launum þeirra. Síðan hafa laun þingmanna og ráðherra fylgt almennum launahækkunum kjararáðs.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir

Kjararáð ákvarði laun fyrir mun færri

Með frumvarpi til nýrra laga um kjararáð er lagt til að fækkað verði verulega þeim sem kjararáð ákvarðar laun og önnur starfskjör.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×