Enski boltinn

City enn að bæta við ungum leikmönnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pep Guardiola er byrjaður að láta til sín taka hjá City.
Pep Guardiola er byrjaður að láta til sín taka hjá City. vísir/getty
Pep Guardiola, stjóri Manchester City, er ekki hættur á leikmannamarkaðnum en enskir fjölmiðlar greina frá því í dag að búist er við því að félagið muni ganga frá kaupum á nítján ára Kólumbíumanni, Marlos Moreno í dag.

City er nýbúið að kaupa Leroy Sane frá Schalke og Gabriel Jesus frá Palmeiras fyrir samtals 64 milljónir punda, jafnvirði 104 milljóna króna, og er talið að félagið greiði tæpar fimm milljónir punda fyrir Moreno.

Enn fremur kemur fram í enskum miðlum að líklegt sé að Moreno verði strax lánaður til Deportivo la Coruna á Spáni en ljóst er að Guardiola er byrjaður að hugsa til framtíðar. Sane er 20 ára, Jesus nítján ára sem og hinn úkraínski Oleksandr Zinchenko sem kom frá Ufa í Rússlandi í byrjun júlí.

Þá hefur hinn 22 ára John Stones, varnarmaður Everton, verið sterklega orðaður við City í allt sumar fyrir háar upphæðir.

Þá hefur Guardiola einnig krækt í reynda kappa, svo sem hinn 25 ára Ilkay Gündogan frá Dortmund og sóknarmaninn Nolito frá Celta de Vigo en hann er 29 ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×