Erlent

Obama náðar metfjölda fanga

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Obama á um hálft ár eftir í embætti forseta.
Obama á um hálft ár eftir í embætti forseta. Vísir/Getty
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, náðaði í dag 214 fanga sem dúsa í alríkisfangelsum í Bandaríkjunum. Fleiri hafa ekki verið náðaðir á einum degi síðan árið 1900.

Meirihluti þeirra sem náðaður var nú situr inni fyrir fíkniefnabrot þar sem engu ofbeldi var beitt, þar af 67 í lífstíðarfangelsi. Obama hefur frá árinu 2014 beitt sér fyrir því að fangar sem hafa setið lengi inni fyrir brot sem í dag er tekið vægar á fái náðun.

Obama hefur, frá því að hann tók við embætti árið 2009, verið afar virkur í náðun fanga og hefur hann alls náðað 562 fanga, fleiri en níu síðustu forverar hans í starfi samtals. Embættismenn Hvíta hússins gera ráð fyrir að Obama muni náða fleiri fanga á þeim tæpum sex mánuðum sem hann á eftir í forsetaembætti.

Margir þeirra sem náðaðir voru í dag losna úr fangelsi í lok ársins en fyrir aðra þýðir náðunin stytting á fangelsisvist gegn því að þeir skrái sig í fíkniefnameðferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×