Erlent

Rússnesk þyrla skotin niður suður af Aleppo

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Flak rússnesku þyrlunnar skammt frá Aleppo.
Flak rússnesku þyrlunnar skammt frá Aleppo. vísir/epa
Sýrland Uppreisnarmenn í Sýrlandi skutu í gær niður rússneska herþyrlu af gerðinni Mi-8 skammt suður af borginni Aleppo. Um borð voru fimm manns, sem allir fórust.

Rússar segja að þyrlan hafi verið nýbúin að koma hjálpargögnum til íbúa í Aleppo. Birst hafa myndir af uppreisnarmönnum, þar sem þeir sjást draga klæðlaust lík eftir jörðinni í grennd við flak þyrlunnar.

Í austurhluta borgarinnar, sem uppreisnarmenn hafa á sínu valdi, búa enn um 250 þúsund almennir borgarar. Þeir eru þar einangraðir vegna umsáturs stjórnarhersins, sem reglulega varpar sprengjum á borgina og hefur meðal annars eyðilagt þar öll sjúkrahús.

Rússar hafa aðstoðað stjórnarherinn með loftárásum á borgina. Reynt hefur verið að fá stjórnarherinn og Rússa til að halda opnum leiðum frá borginni svo almennir borgarar geti komist þaðan, en hörðum loftárásum hefur ekki linnt.

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×