Innlent

Grunaður um tvær nauðganir: Á Litla-Hrauni næstu fjórar vikurnar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn var handtekinn grunaður um nauðgun þann 25. júlí á Suðurnesjum en lögreglan taldi ekki ástæðu til að fara fram á gæsluvarðhald yfir honum í kjölfar þeirrar handtöku.
Maðurinn var handtekinn grunaður um nauðgun þann 25. júlí á Suðurnesjum en lögreglan taldi ekki ástæðu til að fara fram á gæsluvarðhald yfir honum í kjölfar þeirrar handtöku. Vísir/Getty
Ungur maður sem grunaður er um að hafa nauðgað tveimur fimmtán ára stúlkum með sex daga millibili mun vera í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni næstu fjórar vikurnar. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í dag en maðurinn, sem er nítján ára, hefur verið í haldi frá því hann var handtekinn þann 31. júlí. Er hann úrskurðaður í varðhald á grundvelli almannahagsmuna.

Maðurinn var handtekinn grunaður um nauðgun þann 25. júlí á Suðurnesjum en lögreglan taldi ekki ástæðu til að fara fram á gæsluvarðhald yfir honum í kjölfar þeirrar handtöku. Eftir síðari handtökuna í Reykjavík var farið fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir honum en niðurstaðan varð varðhald í tvær vikur. Var ástæðan sú að fara átti fram mat á því hvort rétt væri að vista hann í fangelsi eða á viðeigandi stofnun. 

Hafði maðurinn sagst eiga pantaðan tíma á göngudeild geðdeildar og gengi ekki heill til skógar. Nú liggur fyrir að hann verður í fangelsinu á Litla-Hrauni næstu fjórar vikurnar. Frekara geðmat mun þó fara fram á manninum.

 

Rannsókn gengur vel

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segir í samtali við Vísi að rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sé lokið og komið inn á borð saksóknara. Beðið sé eftir niðurstöðum úr DNA rannsókn í málinu á Suðurnesjum. Rannsókn gangi vel enda séu mál í forgangi þegar maður sæti gæsluvarðhaldi á meðan rannsókn stendur.

Báðar stúlkurnar greindu frá grófu ofbeldi af hendi hins meinta nauðgara. Fjölmörg vitni voru stödd í samkvæmi þegar sem síðara brotið á að hafa átt sér stað og ber þeim, samkvæmt greinargerð lögreglu, saman um aðalatriði málsins. 

Maðurinn verður að óbreyttu í gæsluvarðhaldi til 16. september en ekki liggur fyrir hvort verjandi mannsins muni kæra gæsluvarðhaldsúrskurðinn til Hæstaréttar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×