Menning

Allir geta sameinast í tónlistinni

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ég er með saxófón frá 1958 í djassinum en nýrra og fullkomnara hljóðfæri í klassíkinni,“ segir Sölvi.
"Ég er með saxófón frá 1958 í djassinum en nýrra og fullkomnara hljóðfæri í klassíkinni,“ segir Sölvi. Vísir/GVA
Saxófónleikarinn Sölvi Kolbeinsson er í sumarfríi frá tónlistarskóla í Berlín. Situr samt ekki auðum höndum heldur notar tímann í að spila djass með félögum sínum, Rögnvaldi Borgþórssyni á gítar, Birgi Steini Theodórssyni á bassa og Óskari Kjartanssyni á trommur. Saman mynda þeir Camus kvartett sem kemur fram í Norræna húsinu í kvöld klukkan 20.30 í tónleikaröðinni Arctic Concerts.

„Við félagarnir kynntumst í FÍH fyrir fimm árum og spilum alltaf saman þegar við erum allir á landinu. Þetta eru þriðju tónleikarnir á einu ári,“ segir Sölvi.

„Við erum eiginlega að spila uppáhaldsdjasslögin okkar eftir uppáhaldssnillingana Miles Davis, Wayne Shorter, John Coltrane og fleiri, allt þekkta standarda. Þessi grúppa er mest í því.“

Sölvi er sonur Kolbeins Bjarnasonar flautuleikara og Guðrúnar Óskarsdóttur semballeikara. Hann hefur unnið til fjölda viðurkenninga, meðal annars Íslensku tónlistarverðlaunanna 2016, og stundar nú framhaldsnám í Jazz Institude Berlin, búinn þar með eitt ár af fjórum og kann mjög vel við sig.

„Þetta er frábær skóli og bara 90 manns í BA-námi, allir mjög nánir og smá fjölskyldustemning í hópnum. Við erum með aðgang að skólanum allan sólarhringinn alla vikuna, og getum næstum búið þar. Erum með eldhús og það eru sófar inni í nokkrum herbergjum þar sem hægt er að fleygja sér stöku nætur.“

Hann leigir þó úti í bæ í Berlín með tveimur öðrum strákum og spilar oft með öðrum þeirra. „Svo er bassaleikarinn í Camus kvartett, Birgir Steinn, líka í skólanum og við erum búnir að spila hrikalega mikið saman í alls konar verkefnum. Rögnvaldur gítaristi bjó líka í Berlín í hálft ár og þá vorum við þrír oft saman í tríói.“

Sölvi var átta ára þegar hann byrjaði að læra á saxófón og var fyrstu sjö árin í klassík, bæði í Tónmenntaskóla Reykjavíkur og Tónlistarskólanum í Reykjavík. Færði sig svo í skóla FÍH og var bæði í klassík og djassi í fjögur ár en leggur nú áherslu á djassinn.



„Ég get vel hugsað mér að fara í klassíkina einhvern tíma seinna. Þetta eru tveir ólíkir heimar, ólík hljóðfæri og það getur verið smá kúnst að halda sér í formi í báðum stílunum. Ég er með saxófón frá 1958 í djassinum en nýrra og fullkomnara hljóðfæri í klassíkinni.“

Hann er tvítugur núna, lauk stúdentsprófi frá MH 18 ára og fékk tónlistina metna. „Það er kostur að vera ungur þegar maður sækir um skóla erlendis, þá á maður möguleika á að þroskast enn meira. Annars er fólk á öllum aldri í skólanum, yngsti nemandinn 18 ára og elsti rúmlega þrítugur. Aldursbilið í FÍH var þó enn breiðara. Það geta allir sameinast í tónlistinni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.