Innlent

Starfsfólk leikskóla barnsins fann bílinn við Krónuna í Kórahverfi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn sem stal bílnum fór ekki langt á honum.
Maðurinn sem stal bílnum fór ekki langt á honum. vísir/map.is
Búið er að handtaka mann sem stal bíl með tveggja ára barni við leikskóla í Rjúpnasölum klukkan 15:18 í dag. Maðurinn hefur komið við sögu lögreglu áður og tengist hann ekki fjölskyldu barnsins á neinn hátt.

Bílnum var stolið á meðan faðir barnsins fór inn á leikskólann að sækja eldra barn sitt en þegar hann kom út var bíllinn horfinn. Barnið sem beðið hafði í bílnum hafði verið í aðlögun á leikskólanum fyrr um daginn.

„Hann keyrir upp að Krónunni í Kórahverfinu og fer þar inn að versla. Þar á bílaplaninu finnst bíllinn en það er starfsfólk leikskólans sem sér bílinn við verslunina og hringir á okkur,“ segir Gunnar Hilmarsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Vísi.

Barnið var sem betur fer heilt á húfi en talið er að það hafi verið sofandi á meðan á öllu þessu stóð. Maðurinn var handtekinn skömmu eftir að bíllinn fannst.

Aðspurður hvernig foreldrum barnsins hafi liðið segir Gunnar að þeim hafi að sjálfsögðu verið mjög brugðið.

„Og það var í raun öllum mjög brugðið. Það er ekki á hverjum degi sem þetta gerist, sem betur fer, og það fór allt tiltækt lið af stað auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðaði við leitina,“ segir Gunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×