Fótbolti

Lærifaðir Blatters látinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Havelange var forseti FIFA í 24 ár.
Havelange var forseti FIFA í 24 ár. vísir/getty
Joao Havelange, fyrrverandi forseti FIFA, lést í morgun. Hann var hundrað ára.

Brasilíumaðurinn var formaður FIFA í 24 ár, frá 1974 til 1998. Sepp Blatter tók við starfi hans en Havelange var eins konar lærifaðir Svisslendingsins umdeilda.

Havelange var sömuleiðis mjög umdeildur maður en hann lá lengi undir gagnrýni fyrir spillingu innan FIFA.

Í stjórnartíð Havelange fjölgaði liðum á HM úr 16 í 32 og hann gerði stóra sjónvarpssamninga. Þá fjölgaði aðildarþjóðum FIFA í stjórnartíð Havelange og HM kvenna var sett á laggirnar.

Havelange, sem keppti í sundi fyrir Brasilíu á Ólympíuleikunum 1936 og í sundknattleik 16 árum síðar, sagði af sér sem heiðursforseti FIFA fyrir þremur árum eftir að rannsókn á mútugreiðslum innan sambandsins fór í gang. Havelange slapp við refsingu.

Áður en Havelange varð forseti FIFA var hann forseti brasilíska knattspyrnusambandsins. Brasilía varð þrisvar sinnum heimsmeistari í stjórnartíð hans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×