Erlent

Íbúar Manbij fagna frelsinu

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Íbúar víða um Sýrland hafa mótmælt stríðsástandinu og krafist friðar í landi sínu.
Íbúar víða um Sýrland hafa mótmælt stríðsástandinu og krafist friðar í landi sínu. Vísir/EPA
Íbúar í borginni Manbij, sem er í norðurhluta Sýrlands, hafa síðastliðinn sólarhring fagnað því að hafa losnað undan stjórn hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkisins. Eins og greint var frá á Vísi í gær segjast uppreisnarhópar Kúrda og araba hafa náð stjórn í bænum eftir margra vikna umsátur.

Manbij hefur verið leið ISIS inn og út úr Sýrlandi.

BBC greinir frá því að íbúarnir hafi flykkst út á götur og notiðþess að geta gert ýmislegt sem þeim var bannað á meðan Íslamska ríkið réði lögum og lofum, til dæmis að reykja og raka skegg sitt. Bandaríski herinn studdi uppreisnarhópa Kúrda og araba en það tók sameinað herlið þeirra rúmlega sjötíu daga að frelsa bæinn undan stjórn ISIS. Tvö þúsund borgarar voru frelsaðir úr ánauð.

Íslamska ríkið hefur stjórnað Manbij í um það bil tvö ár. Á þeim tíma voru sérstakar reglur í gildi; til að mynda voru konur þvingaðar til þess að fela allt hold og klæðast svörtum fötum, karlmenn máttu ekki raka af sér allt skegg, þeir sem voru gripnir við að reykja gátu misst fingur og mönnum sem klæddust of síðum buxum var gert að sækja skyldubundna tíma í sjaría-fræðum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×