Viðskipti innlent

Hagnaður Landsbankans hefur dregist saman

Sæunn Gísladóttir skrifar
Rekstrartekjur og hagnaður Landsbankans drógust saman á fyrri helmingi ársins samanborið við árið áður.
Rekstrartekjur og hagnaður Landsbankans drógust saman á fyrri helmingi ársins samanborið við árið áður. Fréttablaðið/Daníel Rúnarsson
Afkoma Landsbankans var jákvæð um 11,3 milljarða króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2016 samanborið við 12,4 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2015.

Fram kemur í tilkynningu að hreinar vaxtatekjur voru 17,6 milljarðar króna og hækkuðu um níu prósent á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur námu 3,9 milljörðum króna og hækkuðu um 14,7 prósent frá sama tímabili árið áður. Virðisbreytingar hækkuðu um 0,4 milljarða króna á milli ára. Aðrar rekstrartekjur námu 4,4 milljörðum króna samanborið við 7,3 milljarða króna ári fyrr og skýrist lækkunin aðallega af minni hagnaði af hlutabréfum. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 8,6 prósent á ársgrundvelli samanborið við 10,4 prósent á sama tímabili 2015.

Rekstrartekjur á fyrri helmingi ársins námu 28,2 milljörðum króna samanborið við 28,8 milljarða króna á sama tímabili árið 2015. Rekstrarkostnaður hækkaði um 1,6 prósent á milli ára. Launakostnaður hækkaði í takt við kjarasamninga en annar rekstrarkostnaður bankans lækkaði um 4,5 prósent á milli tímabila.

Heildareignir bankans í lok júní voru um 1.110 milljarðar króna samanborið við 1.173 milljarða króna ári fyrr. Eigið fé bankans var 247,3 milljarðar króna í lok júní.

Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×