Lífið

Stormsveitarmaður mætti til vinnu á Árbæjarsafni

Birgir Örn Steinarsson skrifar
TK-22304 sinnir störfum sínum á Árbæjarsafni. Susanne er með honum á einni myndinni.
TK-22304 sinnir störfum sínum á Árbæjarsafni. Susanne er með honum á einni myndinni. Vísir/Susanne Arthur
Eitthvað hefur Svarthöfði verið gjafmildur á vinnuaflið sitt því Árbæjarsafni barst óvenjulegur liðsauki í hefðbundin störf á dögunum. Gestir urðu stóreygir þegar mátti sjá Stormsveitarmann í fullum skrúða raka hey, bera vatn og þurrka harðfisk svo fátt eytt sé nefnt.

Við nánari athugun kemur í ljós að Stormsveitarmaðurinn í Árbæjarsafni kom ekki beint úr Dauðastjörnunni heldur úr 501 herflokki Stormsveitarmanna sem er víst staðsettur hér á landi. Númer Stormsveitarmannsins er TK-22304 en hann er ekki klón heldur hreinræktaður Íslendingur að nafni Tómas Árnason.

Hér sést Susanne Arthur og TK-22304 þurrka fisk á safninu.Vísir/Susanne Arthur
Hluti af alþjóðlegri fjársjóðsleit

Ástæðan fyrir tímabundinni ráðningu hans í Árbæjarsafnið var fyrir verkefni sem Susanne Arthur var að leysa fyrir alþjóðlega árlega fjársjóðsleit sem heitir Gishwhes (stem stendur fyrir Greatest International Scavanger Hunt the World Has Ever Seen). Keppnin er hýst af bandaríska leikaranum Misha Collins sem leikur í sjónvarpsþáttunum Supernatural.

Eitt af verkefnum fjársjóðsleitarinnar í ár var að taka myndir af Stormsveitarmanni að störfum við hefðbundin gamaldags verk. Susanne datt strax Árbæjarsafn í hug.

„Hann var látinn heyja, vinna í eldsmiðju, sóttum vatn í pumpur og bárum það í tunnum,“ segir Susanne. „Starfsmenn Árbæjarsafns leiddu okkur á milli staða og sýndu okkur hvaða verk hann gæti unnið.“

TK-22304 þótti standa sig afbragðsvel og aðrir starfsmenn nutu þess að dáðst að vinnubrögðunum.Vísir/Susanne Arthur
Verðlaunin er ferð til Íslands

Lið Susanne heitir Team Messed Up Humans og er alþjóðlegt. Þau skiptu á milli sín verkefnum í grúbbu á Facebook.  Gróðinn úr fjársjóðsleitinni er notaður í góðgerðaverk. Til dæmis fer hluti af peningunum í ár í að styrkja fjölskyldur í Sýrlandi. Félagið sem safnar peningunum heitir Random Acts er einnig tengt leikaranum Mischa Collins.

„Önnur verkefni eru alvarlegri, eins og að fara inn á elliheimili og lesa fyrir fólk í klukkutíma. Þetta er bæði skemmtun og leið til þess að gera eitthvað gott fyrir heiminn.“

Það er skemmtileg staðreynd að sigurlaunin verða ferð til Íslands ásamt leikaranum Misha Collins. Susanne var mastersnemi í Miðaldafræði við Háskóla Íslands 2005 - 2006 en nú nýdoktor við Hugvísindasvið skólans. Hún vinnur hjá Árnastofnun og ætlar að búa hér næstu þrjú árin. Það þarf því líklega ekki að kaupa miða fyrir hana ef lið hennar vinnur. Úrslitin verða ekki ljós fyrr en í haust.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×