Innlent

Grunaður um að nauðga barnsmóður sinni: Blóðslettur víða um íbúðina og áverkar um allan líkamann

Nadine Guðrún Yaghi og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Maðurinn er grunaður um að hafa nauðgað fyrrum sambýliskonu sinni og barnsmóður og beitt hana ofbeldi á heimili hennar í júlí.
Maðurinn er grunaður um að hafa nauðgað fyrrum sambýliskonu sinni og barnsmóður og beitt hana ofbeldi á heimili hennar í júlí. vísir/getty
Hæstiréttur staðfesti þann 1. ágúst síðastliðinn úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að íslenskur karlmaður sem grunaður er um nauðgu verði í gæsluvarðhaldi til 26. ágúst. Maðurinn er grunaður um að hafa í lok júlímánaðar nauðgað fyrrum sambýliskonu og barnsmóður sinni og beitt hana hrottalegu ofbeldi í um tvo klukkutíma á heimili hennar en maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 24. júlí. Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu þann 30. júlí síðastliðinn.

Í gæsluvarðhaldsúrskúrði héraðsdóms kemur fram að maðurinn, sem fæddur er árið 1991, hafi verið á skilorði vegna dóms sem hann hlaut vegna tveggja líkamsárása gegn barnsmóður sinni þegar meint nauðgun og líkamsárás átti sér stað í júlí.

Mætti óboðinn til konunnar

Samkvæmt greinargerð lögreglu var maðurinn handtekinn heima hjá konunni skömmu eftir hina meintu árás. Konan var hins vegar flutt á neyðarmóttöku Landspítalans en á vettvangi og við skýrslutökur hjá lögreglu lýsti konan því að maðurinn hafi um nóttina komið óboðinn heim til hennar ásamt öðrum mann sem konan þekkti ekki. Fyrrverandi sambýlismaður hennar hafi viljað að hún svæfi hjá þeim báðum en það vildi konan ekki. Sagði hún þeim að fara sem þeir og gerðu.

Stuttu síðar kom barnsfaðir hennar aftur og beðið um gistingu. Sagði konan að hann mætti gista á sófanum, hann fór fram en kom svo inn í svefnherbergið, réðst á konuna og nauðgaði henni. Er málsatvikum lýst sem svo í dómi héraðsdóms:

„Taldi brotaþoli atlögu kærða hafa staðið í yfir tvo klukkutíma en á þessum tíma hafi kærði ítrekað nauðgað brotþola, barið hana og hótað henni. Hafi hann þannig haft við hana samfarir um munn, í leggöng og í endaþarm. Hafi brotþoli lýst því að kærði hafi hótað henni með hníf og meðal annars borið hníf að hálsi hennar á meðan hann hafi haft samfarir við hana. Hafi hún hlotið skurð á höku eftir hnífinn. Þá hafi brotþoli sagt að sér væri svo heitt en kærði hafi meinað henni að opna glugga en leyft henni að fara í sturtu. Hann hafi svo nauðgað henni í sturtunni og skellt henni á vegg þar. Brotþoli hafi jafnframt lýst því að hún hefði á einhverjum tímapunkti í atburðarrásinni reynt að komast að útidyrahurð til að kalla á hjálp en kærði hafi náð henni, haldið henni niðri og tekið hana kverktaki þar til hún hafi misst meðvitund. Einnig hafi komið fram hjá brotþola að kærði hafi ítrekað hótað henni lífláti og jafnvel talað um að taka eigið líf um leið. Kveðst brotþoli hafa óttast mjög um líf sitt og talið að kærði ætlaði sér virkilega að drepa hana. Kvaðst brotþoli hafa reynt að ná til kærða með því að ræða við hann um börn þeirra en hún hafi ekkert náð til hans, hann hafi virst brjálaður.“

Blóðugur hnífur í vaski

Þá segir jafnframt í greinargerð lögreglu að samkvæmt skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun hafi áverkar konunnar, sem voru um allan líkama hennar, hafi verið í samræmi við frásögn hennar af atburðum. Þá hafi lögreglan séð blóðslettur víða um íbúð konunnar, meðal annars í forstofu, á gangi við barnaherbergi, stofu og svefnherbergi.

„Blóð hafi einnig fundist við sófa en kærði hafi setið þar þegar lögregla kom að. Þá hafi fundist hnífur með blóði í vaski baðherbergis. Muni hnífurinn vera nokkuð beittur. Inni á baðherbergi hafi allt verið á floti og augljóst að sturtan hafði verið í gangi. Í sturtuklefanum hafi fundist hár á vegg, síð hár. Var það mat rannsóknarlögreglumanns á vettvangi að þessi hár væru nýkomin á vegginn því þau hefðu skolast niður næst þegar skrúfað væri frá vatninu. Á gólfi í svefnherbergi hafi fundist töluvert af hári,“ segir í dómi héraðsdóms.

Maðurinn neitar sök í málinu og er lýsing hans á atburðum afar ólík lýsingum konunnar. Að mati lögreglu stangast framburður hans verulega á við önnur gögn málsins. Þá er framburður konunnar hjá lögreglu í öllum meginatriðum í samræmi við það sem haft er eftir henni í skýrslu læknis á neyðarmóttöku Landspítala.

Maðurinn sé því undir sterkum grun um brot sem varði allt að 10 ára fangelsi auk þess sem hann er undir rökstuddum grun um að hafa rofið skilorð. Var því fallist á kröfu lögreglunnar um að maðurinn sæti gæsluvarðhaldi í fjórar vikur.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er rannsókn málsins á lokametrunum.


Tengdar fréttir

Grunur um hrottalegt brot

Íslenskur karlmaður er grunaður um að hafa nauðgað konu og beitt hana hrottalegu ofbeldi á heimili hennar á föstudag fyrir rúmri viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×