Viðskipti innlent

Samskip ganga frá kaupum á Euro Container Line

Atli Ísleifsson skrifar
Siglingaleið Samskipa í Noregi.
Siglingaleið Samskipa í Noregi. Mynd/Samskip
Samskip hafa gengið frá kaupum á norska flutningafyrirtækinu Euro Container Line (ECL). Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa, segir að kaupverðið sé trúnaðarmál.

Í tilkynningu segir að kaupin séu í takt við áform félagsins um vöxt á þessu markaðssvæði og um leið stærstu kaup þess í Noregi frá upphafi.

„Aukin tíðni ferða og meiri hraði eflir þjónustu við viðskiptavini með umsvif í Noregi. Á það sérstaklega við sjávarútveg á svæðinu sem nýtur góðs af betri þjónustu á norsku ströndinni.

Heildar flutningsmagn Samskipa í Noregi vex umtalsvert eða úr 55.000 gámaeiningum (TEU) í 90.000 gámaeiningar sem eykur heildarflutningsmagn félagsins úr 850.000 gámaeiningum í 885.000 gámaeiningar á ári.

Þessi bætta þjónusta eykur frystiflutningsgetu Samskipa á milli Noregs og meginlands Evrópu um 275 til 300 frystigámaeiningar í viku hverri og tengir frystigeymslur félagsins í Álasundi og Rotterdam,“ segir í tilkynningunni.

Í kjölfar kaupa á helmingshlut í Silver Green

Pálmar Óli segir kaupin renna frekari stoðum undir áform Samskipa um að styrkja stöðu sína í Noregi og koma í framhaldi af kaupum félagsins á 50 prósent hlut í Silver Green. „Við getum nú boðið sjávarútveginum í Noregi betri þjónustu, sambærilega þeirri sem við höfum veitt um áratuga skeið á Íslandi og í Færeyjum.“

Eftir kaupin munu Samskip koma við í fjórtán höfnum og hugsanlega fleirum þegar fram líða stundir, en nýjasta viðbótin er Holla, Ikornes, Maloj og Haugasund í Noregi sem bætast við víðtækt net Samskipa og verða þrjár til fjórar brottfarir í viku frá Rotterdam og Hamborg eftir árstíðabundnu álagi, að því er segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×