„Þetta small allt saman, það er gott að vera kominn aftur á sigurbrautina. Keppnin hér er alltaf skemmtileg og það var gott að koma fyrstur í mark,“ sagði Rosberg eftir keppnina.
„Þetta var skemmtileg keppni, helgin hefur einkennst af appelsínugulum stuðningsmönnum Max [Verstappen] sem er bara skemmtilegt. Þeir kunna að haga sér og hafa sýnt að þeir elska þessa íþrótt. Við vissum að við ættum að geta haldið Lewis [Hamilton] fyrir aftan okkur og það gekk upp í dag,“ sagði Daniel Ricciardo sem varð annar á Red Bull bílnum.
„Ég vissi ekki alveg við hverju var að búast. Hléið var langt og maður vissi ekki alveg hvar hausinn var fyrir keppni. Það kom í ljós að ég var mættur til leiks. Við vorum að giska á að við yrðum í áttunda sæti svo ég er afar sáttur og er með þrjár vélar til að nota í næstu keppnum,“ sagði Lewis Hamilton sem varð þriðji á Mercedes eftir ótrúlega atburðarás. Hann ræsti af stað í 21. sæti en tókst að lágmarka skaðan býsna vel í dag.
„Þetta leit allt vel út þangað til rauða flaggið kom en ég er samt sáttur við keppnina. Auðvitað hefði hjálpað ef keppnin hefði ekki verið stöðvuð, því þá hefði ég haft sterkari stöðu á brautinni,“ sagði Nico Hulkenberg sem var fjórði á Force India.

„Þeir þrengdu að mér í fyrstu beygju og skemmdu framvænginn minn og botnin á bílnum, það skóp frekari vandræði seinna með miklu dekkjasliti og minna niðurtogi,“ sagði Max Verstappen sem varð 11. í dag á Red Bull bílnum eftir brösótta byrjun og mikla baráttu, stundum aðeins of mikla. Verstappen vildi eflaust gera betur fyrir framan aðdáendur sem margir hverjir voru komnir á brautina í von um að sjá hann berjast um fyrsta sætið. Verstappen ræsti annar af stað en féll niður um mörg sæti eftir samstuð við Ferrari ökumenn í fyrstu beygju.
„Eftir á að hyggja hefði verið auðvelt að komast hjá þessu, ég hefði gefið meira pláss. En þrír bílar samsíða í gegnum svona þrönga beygju virkar ekki. Ég sá þá ekki. Við erum kannski heppnir að ná að halda áfram en við hefðum átt að vera báðir á verðlaunapallinum.,“ sagði Sebastian Vettel sem varð sjötti í dag á Ferrari bílnum.