Viðskipti innlent

BSRB telur bónusgreiðslur Kaupþings óásættanlegar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Elín Björg Jónsdóttir er formaður BSRB.
Elín Björg Jónsdóttir er formaður BSRB. mynd/bsrb
Fyrirhugaðar bónusgreiðslur Kaupþings til nokkurra starfsmanna eru óásættanlegur og eiga ekki við í íslensku samfélagi. Þetta er mat BSRB.

„Við verðum að læra af þeim mistökum sem gerð voru á árunum fyrir hrun. Ein af þeim mistökum voru að greiða þeim sem sýsla með fjármuni gríðarháar upphæðir í skjóli þess að þeir bæru svo gríðarlega mikla ábyrgð. Þegar spilaborgin hrundi fór lítið fyrir þeirri ábyrgð og þeir sem fengu svo ríkulega bónusa ypptu öxlum og voru stikkfríir,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

Fyrirhugaðar bónusgreiðslur til nokkurra hátt settra starfsmanna eignarhaldsfélagsins Kaupþings hafa vakið hörð viðbrögð. Kaupþing er langstærsti hluthafi Arion banka, en greiðslurnar gætu numið allt að einum og hálfum milljarði í heildina, sem gerir á milli 50-100 milljónir á mann.

Í yfirlýsingu frá samtökunum er skorað á Alþingi að lagfæra þann ramma sem fjármálafyrirtækjum er settur til að umbuna starfsmönnum sínum en BSRB telur þann ramma óþarflega rúman. Bandalagið telur engin haldbær rök fyrir því að „þeir svokölluðu lykilstarfsmenn Kaupþings“, eins og það er orðað í yfirlýsingunni, eigi að fá um einn og hálfan milljarð króna í bónusgreiðslur, ofan á há laun sem þeir hafa fyrir.

„Það má vera að Kaupþing falli ekki undir lög sem Alþingi setti um bónusgreiðslur fyrirtækja. Væri stjórnendum fyrirtækisins umhugað um samfélagslega ábyrgð myndu þeir engu að síður halda sig við þann rúma ramma sem þar er markaður. Kjósi þeir að gera það ekki ætti Alþingi að bregðast við,“ segir Elín.


Tengdar fréttir

Þingmenn fordæma bónusgreiðslur Kaupþings

Þingmenn lykilflokka Alþingis segja fyrirhugaðar bónusgreiðslur Kaupþings vera siðlausar og engan veginn í takt við kjör almennings. Vilja endurskoða skattalöggjöf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×