Viðskipti innlent

Ekki upplýst um kaupendur á hlut í Reitum

Ingvar Haraldsson skrifar
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita.
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita.
Ekki hefur fengist upplýst hverjir voru kaupendur á 6,38 prósenta hlut ríkisins í Reitum, sem seldur var á ríflega 3,9 milljarða króna á mánudaginn.

Samkvæmt upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu er Þórhallur Arason, skrifstofustjóri ráðuneytisins og stjórnarformaður Lindarhvols ehf., sem heldur utan um söluferlið fyrir hönd ríkisins, í sumarfríi. Steinar Þór Guðgeirsson, lögmaður félagsins, er einnig í sumarfríi.

Frá Landsbankanum, sem sá um útboðið fyrir hönd ríkisins, fást þær upplýsingar að kaupendurnir hafi að stærstum hluta verið lífeyrissjóðir og verðbréfasjóðir en einnig hópur fjárfesta.

Hlutirnir voru seldir í opnu útboði en alls bárust tilboð í sem nemur 9,9 prósentum af heildarhlutafé í Reitum. Ríkið stofnaði Lindarhvol í vor og á hann að halda utan um sölu eigna sem féllu ríkinu í skaut með stöðugleikaframlögum föllnu bankanna.

Ríkið eignaðist hlut í 16 félögum, þar á meðal Reitum, Símanum, Eimskipi, Sjóvá og Dohop. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×