Skoðun

Blásið í bilað gjallarhorn

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Stjórnarmeirihlutinn kann að byggja upp spennu og eftirvæntingu. Ráðherrar tilkynna eiginlega ekki um afrakstur sinnar vinnu nema á glanssýningu í Hörpu og samkvæmt orðum þeirra er þjóðarheill undir á hverju andartaki í starfi þeirra. Það var því von á miklu þegar þing kom saman í ágúst, enda höfðu ráðherrar boðað að slíkur fjöldi þjóðþrifamála væri væntanlegur að það hamlaði mögulega samþykkt þeirra ef tilkynnt yrði um það hvenær ætti að kjósa.

Stjórnarmeirihlutinn kann að byggja upp spennu og eftirvæntingu. Það sem hann kann síður er að standa undir þeim væntingum sem til hans eru gerðar. Skemmst er frá því að segja að eftirtekjan er heldur rýr. Það er ekki eins og alþingismenn kikni undan vinnuálagi, í gær var ekkert á dagskrá þingsins nema umræður um störf þingsins og atkvæðagreiðslur - sem reyndar þurfti að fresta vegna fjarvista þingmanna.

Reynslumiklir menn í þingliði stjórnarflokkanna hljóta að klóra sér í hausnum yfir því til hvers verið var að kalla þing saman. Það nýtist í dag aðallega stjórnarandstöðunni, sem fær færi á að ræða hvert þingmannamálið á fætur öðru - þar sem engin mál koma frá ríkisstjórninni.

En nú hefur allavega einn stjórnarþingmaður áttað sig á þessu. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins og varaformanni fjárlaganefndar, mæltist skynsamlega í fréttum RÚV á þriðjudag.

„Auðvitað þurfum við að koma okkur saman um það hvað við viljum klára. En það eru stór mál, þó það væri ekki nema bara það sem er í þingnefndum, sem væri æskilegt að klára áður en við hættum.“

Þarna afmarkar Guðlaugur Þór málin við þau sem eru þegar komin til þingnefnda. Og líklega verður það lendingin. Þau mál sem fram eru komin verða kláruð, ekki önnur. Það eru slæm tíðindi fyrir Eygló Harðardóttur, sem hefur boðað, enn einu sinni, risastór mál úr sínu ráðuneyti. Og það sem upp úr þessu þingi mun standa er líklega það að efnamikið fólk getur loksins keypt sér orlofshús í útlöndum. Þó reyndar ekki nema eitt á ári.

Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×