Viðskipti innlent

Átta störf lögð niður hjá Tempo

Sæunn Gísladóttir skrifar
Ágúst Einarsson er forstjóri Tempo.
Ágúst Einarsson er forstjóri Tempo.
Hugbúnaðarfyrirtækið Tempo, sem er dótturfyrirtæki Nýherja, hefur endurskipulagt starfsemi sína hér á landi í kjölfar opnunar nýrrar starfsstöðvar fyrirtækisins í Montréal í Kanada. Átta störf verða lögð niður hér á landi við breytingarnar, meðal annars vegna flutnings verkefna héðan og til Montréal segir í tilkynningu.

Þá hefur fyrirtækið einnig opnað skrifstofu í San Francisco sem mun sinna innleiðingarverkefnum í samvinnu við viðskiptavini Tempo á Bandaríkjamarkaði. Gert er ráð fyrir að starfsmönnum Tempo í Norður-Ameríku muni fjölga enn frekar á næstu misserum. Tilgangur breytinganna er að laga starfsemi fyrirtækisins betur að þörfum viðskiptavina sem margir hverjir eru vestanhafs en einnig felst í þeim breyting á innra skipulagi Tempo hér landi. Rekstur Tempo í ár er í takti við áætlanir og gert er ráð fyrir áframhaldandi söluaukningu á vörum fyrirtækisins.

Úr níu starfsmönnum í níutíu á fjórum árum

Tempo hefur vaxið hratt á síðustu árum. Fyrirtækið byrjaði sem nýsköpunarverkefni innan vébanda TM Software en varð síðar að sjálfstæðu dótturfyrirtæki sem markaðssetur og selur sínar eigin hugbúnaðarvörur um heim allan. Starfsmenn fyrirtækisins voru aðeins níu talsins árið 2012 en eru í dag í kringum níutíu í þremur löndum. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Borgartúni 37 í Reykjavík.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×