Viðskipti innlent

Ekki minna atvinnuleysi á öðrum ársfjórðungi síðan 2008

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Í júlí var skráð atvinnuleysi samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar 2 prósent og meðalatvinnuleysi síðustu tólf mánuði 2,5 prósent.
Í júlí var skráð atvinnuleysi samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar 2 prósent og meðalatvinnuleysi síðustu tólf mánuði 2,5 prósent. vísi/vilhelm
Atvinnuleysi á 2. ársfjórðungi hefur ekki verið minna en það er nú síðan á þessum fjórðungi árið 2008. Í júlí var skráð atvinnuleysi samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar 2 prósent og meðalatvinnuleysi síðustu tólf mánuði 2,5 prósent. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans í dag.

„Í nýjustu Peningamálum Seðlabankans kom fram að í nýlegri könnun Gallup meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins hafði hlutfall fyrirtækja sem töldu vera skort á starfsfólki hækkað um rúm 20 prósentustig milli ára. Þannig töldu um 42% fyrirtækja sig búa við skort á starfsfólki og hefur þetta hlutfall ekki verið hærra frá því í lok árs 2007.

Fyrirtæki virðast í auknum mæli bregðast við þessari stöðu með innflutningi vinnuafls. Á fyrri helmingi ársins 2016 fluttust um 2.200 fleiri erlendir ríkisborgarar á vinnualdri til landsins en frá því. Þar var um meira en tvöföldun að ræða frá sama tíma 2015 þegar rúmlega 1.000 fleiri komu til landsins en fóru frá því,“ segir í Hagsjá Landsbankans en hana má lesa í heild sinni hér. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×