Minniháttar Skaftárhlaup er hafið og hefur náð niður í byggð. Á vef Veðurstofunnar segir að áin sé vatnsmikil og megi búast við brennisteinslykt.
Rennsli Skaftár við Sveinstind hefur verið að aukast allt frá klukkan 16 í gær.
„Sumarleysing á jökli eða rigningar orsaka ekki hið aukna rennsli. Þessar athuganir þýða að Skaftárhlaup er líklega hafið.
Rennslið við Sveinstind er nú um 270 rúmmetrar á sekúndu eða heldur meira en mesta rennsli sem áin náði í jöklaleysingu í sumar.
Hlaupið kemur líklegast úr Vestari Skaftárkatli, sem síðast hljóp úr í júní 2015.
Hlaupið hefur náð niður í byggð og fylgir því mikil brennisteinslykt og sjónarvottar hafa tilkynnt um að áin sé vatnsmikil og að hún sé dökk á lit,“ segir á vef Veðurstofunnar.
