Innlent

Nýtt fræðslumyndband Samtakanna 78: Svaðilför Rósalínar til elskunnar sinnar

Anton Egilsson skrifar
Sagan um Rósalín er hugverk Daniel Errico og þá sá Ingunn Snædal um íslenska þýðingu.
Sagan um Rósalín er hugverk Daniel Errico og þá sá Ingunn Snædal um íslenska þýðingu.
Samtökin 78, hagsmuna- og baráttusamtök hinsegins fólks, hafa gefið út nýtt myndband í formi teiknimyndar sem ber heitið „Rósalín“ og er ætluð sem fræðsluefni fyrir börn um hvað er að vera hinsegin.

„Rósalín” segir frá ungri konu sem leggur af stað í mikla svaðilför. Áætlun Rósalínar er að fara á fund elskunnar sinnar en sú ferð gengur þó ekki áfallalaust fyrir sig. Á göngu sinni hittir hún fyrir norn, úlf og síðast álfkonu sem öll reyna að klekkja á henni, hver með sínum hætti.

Rósalín er þó samkvæm sjálfri sér og lætur ekki aðra segja sér fyrir verkum. Stendur hún af sér öll gylliboð og kemst að lokum heim í faðm elskunnar sinnar sem er ung kona, líkt og Rósalín. Sjón er sögu ríkari.

Sagan um Rósalín er hugverk Daniel Errico og þá sá Ingunn Snædal um íslenska þýðingu. Verkefnið var styrkt af Jafnréttiskóla Reykjavíkur.

Þetta er ekki fyrsta fræðsluefnið sem Samtökin 78 gefa út á þessu formi en í apríl fjallaði Vísir um söguna „Hugrakki riddarinn“ sem segir frá raunum riddarans Cedrik en Daniel Errico er einnig höfundur hennar.

Auður Magndís Auðardóttir, framkvæmdastýra Samtakanna 78, sagði í samtali við fréttastofu að stefnan sé sett á að ná samstarfi við Reykjavíkurborg um að koma myndbandinu í sýningu inn í grunnskólunum og þá fyrir yngstu bekkina. Þá segir hún að lítið sé til af efni fyrir börn á yngsta stigi til að skapa þá umræðu sem þörf er.

Hægt er að horfa á myndbandið í myndspilarnum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×