Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska körfuboltalandsiðsins, leikur sinn 100. landsleik þegar Ísland mætir Belgíu í Antwerpen í kvöld.
Þetta er þriðji leikur íslensku strákanna í undankeppni EM 2017 en þeir eru með fullt hús stiga í riðli 3 líkt og Belgar.
Landsliðsferill Hlyns hófst fyrir 16 árum í Makedóníu en hann var aðeins 18 ára gamall þegar hann lék sinn fyrsta landsleik.
Hlynur, sem er nýgenginn í raðir Stjörnunnar, er sá þrettándi sem nær að spila 100 landsleiki fyrir Ísland. Guðmundur Bragason er sá leikjahæsti með 169 landsleiki.
Logi Gunnarsson er leikjahæstur í íslenska hópnum en hann leikur landsleik númer 127 í kvöld.
Leikur Íslands og Belgíu hefst klukkan 18:00. Fylgst verður með honum í beinni textalýsingu á Vísi.
Hundrað leikja klúbburinn:
Guðmundur Bragason, Valur Ingimundarson, Jón Kr. Gíslason, Torfi Magnússon, Guðjón Skúlason, Jón Sigurðsson, Teitur Örlygsson, Friðrik Stefánsson, Herbert Arnarson, Falur Harðarson, Jón Arnar Ingvarsson, Logi Gunnarsson og Hlynur Bæringsson.
