Enski boltinn

Markvörður skoraði af 75 metra færi í bikarleik á Englandi | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dan Lowson, markvörður Spennymoor Town á Englandi, gleymir bikarleik liðsins gegn Radcliffe Borough um helgina seint en þar skoraði hann ótrúlegt mark.

Spennymoor, sem leikur í 7. deild enska boltans, hafði betur gegn Radcliffe sem leikur deild neðar, 5-3, en eitt markanna skoraði Lowson úr eigin vítateig.

Markvörðurinn tók aukaspyrnu um 75 metrum frá marki Radcliffe og þrumaði eins langt og hann gat. Boltinn skoppaði beint fyrir framan markvörð Radcliffe með þeim afleiðingum að boltinn fór yfir hann og í netið.

Afskaplega neyðarlegt fyrir markvörð Radcliffe en að sama skapi eitt af bikarmörkum ársins komið strax í fyrstu umferð forkeppninnar. Það verður erfitt að toppa þetta.

Spennymoor mætir Whitby á heimavelli í annarri umferð forkeppninnar en liðin sem koma inn á þessu stigi þurfa að vinna fjóra leiki til þess að komast í fyrsta stóra dráttinn í 64 liða úrslitunum þar sem úrvalsdeildarliðin mæta til leiks.

Markið magnaða má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×