Enski boltinn

Dýrasti knattspyrnuleikur sögunnar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Stjórarnir Jose Mourinho og Pep Guardiola eru að vinna með dýran varning. Sjálfir komu þeir ekki á neinni útsölu.
Stjórarnir Jose Mourinho og Pep Guardiola eru að vinna með dýran varning. Sjálfir komu þeir ekki á neinni útsölu. vísir/afp
Nágrannaslagur Man. Utd og Man. City um helgina verður sögulegur að því leyti að liðin hafa aldrei mætt til leiks með eins dýra leikmenn. Það sem meira er þá mun þessi leikur slá öll met yfir dýr knattspyrnulið. Þetta verður dýrasti leikur sögunnar.

Þarna eru ekki bara að mætast tveir af bestu þjálfurum heims - Jose Mourinho og Pep Guardiola - heldur líka 22 leikmenn sem kostuðu 104 milljarða króna.

Líklegt byrjunarlið Man. Utd í leiknum mun hafa kostað félagið 54,4 milljarða króna þar sem telur mest dýrasti leikmaður allra tíma, Paul Pogba. Hann kostaði 14,5 milljarða króna. Liðið verður svona dýrt þó svo Zlatan hafi komið frítt.

Bæði Anthony Martial og Luke Shaw voru dýrustu ungu leikmenn heims er United keypti þá. Martial kostaði 8,3 milljarða og Shaw 4,3 milljarða króna.

Pogba verður dýrastur allra á vellinum.vísir/getty
Byrjunarlið Man. City mun að öllum líkindum kosta 50 milljarða króna. Dýrastir eru Kevin de Bruyne (8,4 milljarðar), John Stones (7,7 milljarðar), Raheem Sterling (7,6 milljarðar) og Leroy Sane (5,7 milljarðar).

Sky Sports hefur verið að skoða þetta mál og samkvæmt þeirra útreikningum var dýrasti leikur sögunnar á milli Real Madrid og Barcelona í Madrid þann 4. nóvember í fyrra.

Byrjunarliðin í þeim leik kostuðu rúma 87 milljarða króna. Real Madrid var aftur á móti með byrjunarlið í þeim leik sem kostaði 3 milljörðum meira en byrjunarlið Man. Utd.

Þar sem Barcelona spilar meira á uppöldum leikmönnum þá verður slagurinn í Manchester um helgina sá dýrasti frá upphafi. Sögulegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×