Viðskipti innlent

Skiptar skoðanir um þjóðpeninga

Hafliði Helgason skrifar
Seðlabankastjóri og Martin Wolf voru ekki á einu máli um ágæti þess að taka upp nýtt peningamálakerfi.
Seðlabankastjóri og Martin Wolf voru ekki á einu máli um ágæti þess að taka upp nýtt peningamálakerfi.
„Þegar litið er til almennrar velsældar, stjórnunar hins opinbera og baráttu við sjúkdóma hefur heiminum að mestu leyti farið fram. Það gildir ekki um peningamálakerfið,“ sagði Martin Wolf, aðalálitsgjafi The Financial Times um efnahagsmál.

Wolf var einn frummælenda á fundi um þjóðpeninga sem haldinn var í tilefni nýrrar skýrslu KPMG um efnið. Þjóðpeningakerfi byggir á því að Seðlabankanum einum er heimilt að búa til peninga fyrir hagkerfið og ríkið hafi möguleika á að setja nýtt fé inn í hagkerfið í gegnum fjárlög. Wolf sagði að litlar líkur væru á að vilji væri til slíkra breytinga nú: „Við verðum að vera tilbúin með nýtt plan þegar næsta áfall dynur yfir.“ Hann sagði að bankakrísur dagsins í dag væru alvarlegri en áður vegna þess hversu stór efnahagsreikningur banka væri í hlutfalli við hagkerfin.

Frosti Sigurjónsson alþingismaður hefur verið talsmaður þess að innleiða slíkt kerfi. Fylgjendur kerfisins hafa bent á veikleika núverandi kerfis þar sem fjármunamyndun á sér stað í gegnum viðskiptabanka með útlánum á grundvelli innlána út í hagkerfið. Frosti Sigurjónsson sagði í pallborði að í hugbúnaðargeiranum myndi kerfi sem hefur valdið jafn miklum skakkaföllum og núverandi peningakerfi, þrátt fyrir umbætur, ekki verða bætt einu sinni enn, heldur yrði því skipt út.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri var einn frummælenda. Már fagnaði umræðu um málið, en lýsti miklum efasemdum um þessa leið. Hann sagði sjónarhorn talsmanna þjóðpeningakerfis þröngt. Vissulega mætti taka undir gagnrýni á veikleika núverandi kerfis, en líta þyrfti einnig til þess að bankakerfin hefðu skapað jarðveg fyrir vöxt og viðgang efnahagslífsins. Hann lagði áherslu á styrk íslenskra banka í dag og hátt eiginfjárhlutfall.

Ásgeir Jónsson hagfræðingur tók þátt í pallborði og hafði einnig miklar efasemdir um þjóðpeningakerfi. Hann sagði að síðasta ofris bankakerfisins hefði ekki stafað af útlánum á grundvelli innlána, heldur hefði verið um vöxt sem grundvallaðist á skuldabréfafjármögnun að ræða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×