Viðskipti innlent

Bayer býður 7.600 milljarða í Monsanto

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Höfuðstöðvar Monsanto í St. Louis-borg í Missouri-fylki Bandaríkjanna.
Höfuðstöðvar Monsanto í St. Louis-borg í Missouri-fylki Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Þýski lyfjarisinn Bayer tilkynnti í gær um 65 milljarða dala, andvirði um 7.500 milljarða króna, tilboð sitt í bandaríska fyrirtækið Monsanto. Myndi Monsanto fá um fimmtán þúsund krónur á hvern keyptan hlut. Viðræður Bayer og Monsanto eru sagðar langt komnar í tilkynningu sem Bayer sendi frá sér í gær.

Monsanto framleiðir og þróar erfðabreytt fræ fyrir matvæli á borð við maís, sojabaunir og hveiti. Auk lyfjaframleiðslu framleiðir og þróar Bayer skordýraeitur fyrir akuryrkju og erfðabreytt matvæli undir nafninu Bayer CropScience. Með fyrirhuguðum samruna vonast Bayer til að verða langstærsti framleiðandi erfðabreyttra fræja fyrir matvæli á heimsvísu.

Eigendur Monsanto höfðu áður hafnað rétt rúmlega sjö þúsund milljarða króna tilboði Bayer.

Hið hækkaða tilboð Bayer kemur í kjölfar samruna samkeppnisaðila á borð við Dow Chemical, DuPont og Syngenta.

Fréttastofa BBC greinir frá því að óvíst sé að samkeppniseftirlit Bandaríkjanna samþykki samruna Bayer og Monsanto vegna stærðar fyrirtækjanna tveggja. Þá hafa hagsmunasamtök bænda þar í landi lýst yfir áhyggjum af samrunanum og segja hann leiða til minni samkeppni og hærra verðs.

Um er að ræða átjánda hæsta kaupverð í sögunni. Það hæsta var hins vegar þegar Vodafone keypti þýsku Mannesmann-samsteypuna á 202 milljarða bandaríkjadala, andvirði 23 þúsund milljarða króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×