Fótbolti

Ragnar: Vissi að hann myndi skjóta framhjá eða Hannes verja

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ragnar Sigurðsson, varnarmaður íslenska landsliðsins, segir að miðað við spilamennskuna í síðari hálfleik gegn Úkraínu geti liðið sætt sig við eitt stig.

„Miðað við hvað við vorum slakir í síðari hálfleik þá held ég að við getum verið sáttir með eitt stig hérna," sagði Ragnar í samtali við íþróttadeild 365 í Kiev.

„Fótbolti er stundum bara svona. Við vorum pirraðir að hafa fengið á okkur jöfnunarmarkið og ætluðum út að valta yfir þá, en svo gerist akkúrat öfugt."

Aðspurður hver væri ástæðan fyrir því hve illa liðið spilaði í síðari hálfleik sagðist Ragnar hafa fátt um svör.

„Stundum hefur maður bara enga skýringu á þessu. Þeir spiluðu vel - við spiluðum ekkert spes í síðari hálfleik og tókum eitt stig hérna."

Eina ógn Úkraínu-manna nánast allan leikinn voru skot utan af velli og Ragnar segir að liðið vilji verjast þannig, að gefa fá færi á sér.

„Það er þannig sem við viljum verjast. Við viljum ekki gefa mörg færi á okkur og það tókst vel í fyrri hálfleik og eiginlega allan síðari hálfleikinn."

„Þeir fá þetta víti og þá var komið smá hætta inn í teig, en það var ekki mikið af því," en var Ragnar ekki skíthræddur þegar vítaspyrnan var dæmd?

„Var ég skíthræddur? Nei ég var nú ekki skíthræddur. Vissi að Hannes myndi verja eða hann skjóta framhjá svo þetta var allt í góðu," sagði Ragnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×