Innlent

Óánægja með ákvörðun bæjarstjóra að flytja úr bænum

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Róbert Ragnarson, bæjarstjóri í Grindavík, og Krisín María Birgisdóttir, forseti bæjarstjórnar.
Róbert Ragnarson, bæjarstjóri í Grindavík, og Krisín María Birgisdóttir, forseti bæjarstjórnar.
Forseti bæjarstjórnar Grindavíkur er afar ósáttur með ákvörðun bæjarstjóra sveitarfélagsins að flytja frá Grindavík og til höfuðborgarinnar, en áfram starfa sem bæjarstjóri. Forsetinn segir að brottrekstur hafi borið á góma.

Róbert Ragnarson, bæjarstjórinn í Grindavík, tilkynnti í síðustu viku að hann hugðist flytja úr sveitarfélaginu og til höfuðborgarinnar. Forseti og varaforseti bæjarstjórnar vilja að bæjarstjóri búi á staðnum en segja að ekki sé hægt að krefja hann um það.

Kristín María Birgisdóttir, forseti bæjarstjórnar, segist hafa fengið fréttir af flutningi Róberts nokkru fyrr en í síðustu viku. „Við vorum svo sem ekkert hress með það. Við viljum að bæjarstjórinn búi í Grindavík, en við getum ekki staðið í vegi fyrir að hann flytji. Hann hefur ákveðið að flytja nær sínu fólki. Það breyttust aðstæður hjá honum á kjörtímabilinu þannig að maður reynir að sýna því skilning.“

Skiptar skoðanir eru um brottflutning bæjarstjórans í bæjarfélaginu og sömuleiðis í pólitíkinni. „Fólk hefur náttúrulega skoðanir á málinu og þær eru misjafnar. Svo titringur? Ég skal ekki segja. Við viljum náttúrulega að hann búi í Grindavík.“

Staða Róberts hefur verið rædd innan bæjarstjórnar og í viðtali við Víkurfréttir á föstudag sagði Hjálmar Hallgrímsson, varaforseti bæjarstjórnar, að brottrekstur hafi borið á góma.

Kristín María segir að það hafi ekki formlega rætt að skipta um bæjarstjóra. „Staðan hefur að sjálfsögðu verið rædd og bæjarstjórinn hefur verið með í þeirri umræðu. Við ræddum þetta eftir síðasta bæjarstjórnarfund að þetta væri staðan sem væri komin upp. Í Grindavík býr fólk sem vinnur í Reykjavík, þannig að ef fólk getur sinnt starfi sínu án þess að búa á svæðinu þá er það það sem skiptir máli.“

Væri hann sáttur að hætta sem bæjarstjóri ef þið færuð fram á það við hann?

„Það hefur ekki verið rætt þannig að ég bara veit það ekki. Ég held að hann hafi fullan hug að starfa áfram af þeim krafti sem hann hefur verið að gera sem bæjarstjóri. Hann hefur sinnt starfi sínu mjög vel og hefur verið bæjarstjóri í sex ár og hefur búið í Grindavík í sex ár. En nú eru breyttar aðstæður,“ segir Kristín María.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×