Innlent

Páll Matthíasson: „Landspítalinn brást þessari fjölskyldu“

Birgir Olgeirsson skrifar
Forstjóri Landspítalans segir Landspítalann harma fráfall Nóa Hrafns og taka ábyrgð á þeirri atburðarás sem leiddi til andláts hans.
Forstjóri Landspítalans segir Landspítalann harma fráfall Nóa Hrafns og taka ábyrgð á þeirri atburðarás sem leiddi til andláts hans.
„Landspítali harmar fráfall Nóa Hrafns og tekur ábyrgð á þeirri atburðarás sem leiddi til andláts hans,“ skrifar Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í vikulegum forstjórapistli sem birtist á vef Landspítalans.

Sigríður Eyrún Friðriksdóttir og Karl Olgeir Olgeirsson eignuðust soninn Nóa Hrafn snemma árs í fyrra. Hann lést skömmu eftir fæðingu sökum mistaka starfsfólks Landspítalans.

Í Kastljósi í vikunni fóru Sigríður Eyrún og Karl ítarlega yfir fæðinguna og aðdraganda þess að sonur þeirra lést. Þau segjast hafa ítrekað beðið um aðstoð og inngrip við fæðinguna en mætt hrokafullu viðmóti ljósmæðra spítalans. Þau hafi fengið þau svör að sérfræðingur þyrfti að gefa álit sitt á stöðunni en aldrei hafi hann verið kallaður til.

Páll segir þessa umfjöllun Kastljóssins hafa látið engan sem á horfði ósnortinn. „Enda sorg foreldra barnsins sem lést og annarra ástvina átakanleg,“ segir Páll í pistlinum.

Hann segir ítarlega rótargreiningu hafa leitt til þeirrar niðurstöðu, samhljóða niðurstöðu Embættis landlæknis, að mistök hafi verið gerð sem leiddu til dauða drengsins.

„Það er sannleikur málsins. Landspítalinn brást þessari fjölskyldu. Við getum aldrei harmað það nógsamlega,“ segir Páll.

Hann segir Landspítalann geta þó dregið lærdóm af þessu alvarlega máli og það hafi raunar þegar gerst í kjölfar rótargreiningarinnar. 

„Þar voru lagðar til umbótaaðgerðir sem ætlað er að bæta þjónustu okkar við foreldra í fæðingarferli og höfum við þegar komið sjö slíkum verkefnum í farveg, m.a. í samstarfi við Embætti landlæknis. Árangur okkar í fæðingarhjálp er á heimsmælikvarða og raunar erum við þar fremst meðal jafningja. Það gerir undantekningarnar svo hörmulegar. Það er samt mikilvægt að minna almenning á þessa staðreynd og ég fullyrði að fæðandi konum er óhætt að leita til Landspítala,“ segir Páll. 


Tengdar fréttir

Landlæknir segir mikilvægt að tilkynna mistök og læra af þeim

Birgir Jakobsson landlæknir segir mikilvægt að embættið sé afdráttarlaust í niðurstöðum sínum vegna kvartana sjúklinga sem koma þangað inn á borð, en það var einmitt tilfellið í máli þeirra Sigríðar Eyrúnar Friðriksdóttur og Karls Olgeirs Olgeirssonar sem kvörtuðu til landlæknis eftir að nýfæddur sonur, Nói Hrafn, þeirra lést á spítalanum skömmu eftir fæðingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×