Fótbolti

Costa lét spænsku pressuna heyra það: „Fengi hrós ef ég spilaði fyrir Real eða Barca“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Diego Costa vill fá hrós þegar hann á það skilið.
Diego Costa vill fá hrós þegar hann á það skilið. vísir/getty
Diego Costa, framherji Chelsea í ensku úrvalsdeildinni, lét spænska blaðamenn heyra það eftir 2-0 sigur Spánar á Belgíu í vináttuleik í gærkvöldi. Hann vill meina að hann fengi hrós þegar hann á það skilið ef hann væri leikmaður spænsku risanna Real Madrid eða Barcelona.

Costa hefur litlu sem engu skilað fyrir spænska landsliðið eftir að hann tók upp spænskt ríkisfang og skipti um landslið en hann er fæddur í Brasilíu og á tvo leiki að baki fyrir uppeldisþjóð sína.

Framherjinn öflugi hefur aðeins skorað einu sinni í ellefu leikjum fyrir Spán en hann kom inn á sem varamaður í fyrri hálfleik í gær fyrir meiddan Alvaro Morata og lagði upp fyrra mark Davids Silva.

Costa varð var við gagnrýni í sinn garð eftir leikinn og lét menn vita að hann væri ekki sáttur með þessa endalausu gagnrýni þegar hann ætti hana ekki skilið.

„Ef ég væri leikmaður Real Madrid eða Barcelona fengi ég hrós. Ég hef stundum spilað illa en þó ég skori ekki verðið þið að segja sannleikann. Mig hefur skort mörk en þau koma,“ sagði Costa.

„Fjölmiðlarnir eru ekkert alltaf að ljúga þegar þeir segja að ég hafi ekki spilað vel fyrir landsliðið en þið verðið að segja satt þegar ég spila vel. Þetta var líklega einn besti leikur minn fyrir Spán. Stundum hef ég ekkert pælt í þessari gagnrýni en stundum gerið þið úlfalda úr mýflugu,“ sagði Diego Costa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×