Fótbolti

Engin Ólympíuþynnka hjá Brössum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neymar braut ísinn gegn Ekvador.
Neymar braut ísinn gegn Ekvador. vísir/getty
Nýkrýndir Ólympíumeistarar Brasilíu unnu mikilvægan 0-3 útisigur á Ekvador í undankeppni HM 2018 í kvöld.

Með sigrinum komust Brassar upp í 4. sæti í Suður-Ameríkuriðlinum. Þeir eru nú með 12 stig, einu minna en Ekvador sem er í 2. sæti.

Það tók Brasilíumenn 72 mínútu að brjóta Ekvadora á bak aftur í leiknum í kvöld.

Neymar kom Brössum yfir með marki úr víti og fjórum mínútum seinna fékk Juan Paredes, leikmaður Ekvadors, að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Það auðveldaði Brasilíumönnum verkið og Gabriel Jesus, sem Manchester City keypti í síðasta mánuði, bætti tveimur mörkum við undir lokin.

Þrátt fyrir að klúðra tveimur vítaspyrnum vann Kólumbía 2-0 sigur á Venesúela á heimavelli.

James Rodríguez kom Kólumbíumönnum yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks og þannig var staðan fram á 81. mínútu þegar heimamenn fengu vítaspyrnu og

Wilker Ángel fauk af velli.

Daniel Hernandez varði spyrnu Carlos Bacca en hann kom engum vörnum við þegar Macnelly Torres skoraði skömmu síðar.

Kólumbíumenn fengu aðra vítaspyrnu í uppbótartíma þegar og Rolf Feltscher, leikmaður Venesúela, var rekinn af velli með sitt annað gula spjald. James fór á punktinn en aftur varði Hernandez.

Það kom ekki að sök og Kólumbíumenn fögnuðu sínum þriðja sigri í röð. Þeir eru í 3. sæti riðilsins með 13 stig en Venesúela er á botninum með aðeins eitt stig.

Þá vann Bólivía 2-0 sigur á Perú í þunna loftinu í La Paz. Pablo Escobar og Ronald Raldes skoruðu mörk Bólivíu sem er í 8. sæti riðilsins með sex stig. Perú er í sætinu fyrir neðan með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×