Fótbolti

Beið á hóteli í þrettán tíma en kaupin gengu ekki í gegn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Witsel í leik með belgíska landsliðinu á EM í sumar.
Witsel í leik með belgíska landsliðinu á EM í sumar. Vísir/Getty
Belgíski landsliðsmaðurinn Axel Witsel náði ekki að ganga til liðs við Juventus í gær eins og til stóð.

Witsel er á mála hjá Zenit í St. Pétursborg í Rússlandi og flaug í gær til Tórínó þar sem hann átti að ganga undir læknisskoðun.

Félögin voru búin að komast að samkomulagi um kaupverð en Juventus samþykkti að kaupa kappann á 21 milljón evra, jafnvirði 2,7 milljarða króna.

Ítalskir fjölmiðlar greina svo frá því að leikmaðurinn hafi beðið á hóteli í þrettán klukkutíma á meðan að Juventus beið eftir því að Zenit myndi gefa grænt ljós á félagaskiptin.

Rússarnir drógu þó lappirnar allan daginn en talið er að þjálfari liðsins, Mircea Lucescu, hafi ekki viljað samþykkja félagaskiptin fyrr en að Zenit væri búið að ganga á kaupum á öðrum leikmanni í staðinn.

Sá leikmaður átti að vera Grikkinn Andreas Samaris, leikmaður Benfica, en þau kaup náðu ekki að ganga í gegn.

Zenit samþykkti þó að lokum að leyfa Witsel að fara en þegar það var gert var búið að loka félagaskiptaglugganum á Ítalíu og of seint að ganga frá nauðsynlegri pappírsvinnu.

Witsel á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Zenit og því líklegt að hann muni fara til ítölsku meistaranna án greiðslu þá.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×