Formúla 1

Nico Rosberg á ráspól | Vettel aftastur

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Nico Rosberg var lang fljótastur á Marina Bay brautinni í dag.
Nico Rosberg var lang fljótastur á Marina Bay brautinni í dag. Vísir/Getty
Nico Rosberg á Mercedes mun ræsa fremstur í Singapúr kappastrinum á morgun. Daniel Ricciardo á Red Bull varð annar og Lewis Hamilton á Mercedes þriðji.

Þetta var fyrsti ráspóll Rosberg í Singapúr. Sá sem situr á ráspól hefur unnið sex af síðustu sjö keppnum í Singapúr. Sebastian Vettel sem var á ráspól á brautinni í fyrra ræsir aftastur á morgun eftir bilun í tímatökunni.

Sebastian Vettel lenti í vandræðum með framfjöðrun bílsins í fyrstu lotunni. Þegar hann beygði bílnum inn í beygjur lyftist innra framdekkið frá malbikinu. Ferrari reyndi hvað hægt var til að gera við bílinn en allt kom fyrir ekki. Hann varð síðastur í tímatökunni.

Vettel sem vann keppnina í fyrra var því úr leik í fyrstu lotu tímatökunnar og ræsir aftastur á morgun. Skelfileg mistök hjá Ferrari liðinu.

Í fyrstu lotu duttu Manor og Renault ökumennirnir út, ásamt Felipe Nasr á Sauber og Vettel á Ferrari.

Daniel Ricciardo varð fljótastur í fyrstu lotu á Red Bull bílnum.

Vettel var í vandræðum með fjöðrun bílsins í tímatökunni. Hann ætlaði sér stóra hluti í Singapúr en bíllinn brást honum.Vísir/Getty
Ricciardo og Max Verstappen á Red Bull settu fyrst tíma á ofurmjúku dekkjunum í annarri lotu. Þeir freistuðu þess að komast áfram á þeim dekkjum til að hefja keppnina á þeim á morgun. Það tókst og munu Red Bull menn því væntanlega geta ekið lengra inn í keppnina á morgun áður en þeir taka fyrsta þjónustuhlé.

Romain Grosjean hafnaði á varnarvegg í annarri lotu tímatökunnar og gulum flöggum var því veifað á öðru og þriðja tímatökusvæði.

Jenson Button stöðvaði McLaren bíl sinn undir lok annarrar lotu.

Williams og Haas ökumennirnir duttu út í annarri lotu, ásamt Button á McLaren og Marcus Ericsson á Sauber.

Rosberg var langt fljótastur í annarri lotu.

Þriðja lotan var einkar spennandi enda fimm ökumenn sem gerðu tilkall til ráspóls.

Rosberg setti brautarmet í fyrstu tilraun í þriðju lotunni. Hann var 0,7 sekúndum á undan Hamilton sem var annar. Þetta var ógnarsterkur hringur hjá Rosberg.

Hamilton klúðraði fyrstu beygjunni og í kjölfarið öllu fyrsta tímatökusvæðinu. Hringurinn var þá farinn í vaskinn hjá Hamilton. Ricciardo náði öðru sætinu af Hamilton.


Tengdar fréttir

Mercedes vonast eftir betri keppni í Singapúr

Mercedes liðið í Formúlu 1 telur sig hafa fundið útskýringu slakrar frammistöðu í Singapúr á síðasta ári. Þá voru báðir ökumenn liðsins rúmri sekúndu frá ráspól í tímatöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×