Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, hvetur leiðtoga aðildarríkja sambandsins til að líta í eigin barm og horfast í augu við vandamálin sem sambandið glímir við nú um stundir.
Leiðtogarnir hittast í höfuðborg Slóvakíu, Bratislava í dag, til að ræða leiðir til að efla traust almennings á ESB.
Forsætisráðherra Breta, Theresu May, er ekki boðið til fundarins, enda eru Bretar á leiðút úr sambandinu. Þótt útganga Breta sé ekki formlega á dagskrá fundarins er þó talið að það verði fyrirferðarmikið mál á fundinum. Flóttamannamálin eru þó vafalítið stóra málið sem leiðtogarnir standa frammi fyrir.
Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði við blaðamenn í dag að Evrópusambandið eigi í alvarlegum vanda. Leiðtogarnir verði að sýna fram á að hægt sé að auka öryggi borgaranna, bæta samvinnu í varnarmálum og laga efnahag sambandsins.
Þó liggur ljóst fyrir að leiðtogar sambandsins eru engan veginn á eitt sáttir um hvernig taka skuli á flóttamannamálunum eða hvernig best sé að hressa upp á efnahagslíf Evrópuríkjanna.
